Pólsk kvikmyndahátíð á Eskifirði

Fimm pólskar kvikmyndir verða sýndar á kvikmyndahátíð sem haldin er öðru sinni í Valhöll á Eskifirði um helgina. Kvenleikstjórar eru áberandi í dagskránni en líka myndir sem tengjast Íslandi.

Dagskráin er fjölbreytt: heimildamyndir, stuttmyndir og svo leiknar myndir í fullri lengd fyrir bæði börn og fullorðna. Myndirnar eru sýndar með enskum texta og aðgangur er ókeypis. Olga Jablonska hefur haldið utan um dagskrána í samstarfi við Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Opnunarmynd hátíðarinnar á laugardag heitir Infinity Storm og fjallar um fjallamann sem lendir í snjóbyl þar sem hann rekst á strandaglóp og þarf að koma báðum til byggða fyrir myrkur. Hin pólska Malgorzata Szumowska leikstýrir myndinni en Naomi Watts leikur aðalhlutverkið. Myndin er á ensku og sýnd með pólskum texta.

Þrjár myndir verða sýndar á sunnudag. Fyrst er það barnamyndin Detective Bruno en síðan heimildamyndin In Touch sem fjallar um Pólverja sem flytjast til Íslands en halda tengslunum heim í gegnum Skype. Loks er það stuttmyndin í Ijósaskiptunum. Maja Adams, sem nam kvikmyndagerð hérlendis, er leikstjóri hennar. Þar segir frá síðasta vitaverðinum sem er alinn upp á afskekktum vitastað en þarf að hætta störfum því tæknin tekur við af honum. Hann þarf að takast á við nýjan veruleika þegar þegar það eina sem hann kann í lífinu er tekið af honum. Valdimar Örn Flygenring leikur aðalhlutverkið.

Síðasta mynd hátíðarinnar verður sýnd sunnudaginn 11. desember. Er þar um að ræða gamanmyndina Zupa Nic sem gerist á árum kommúnistastjórnarinnar í Póllandi. Leikstjóri hennar er Kinga Debksa. Eftir hana eru síðan tónleikar með Stefni.Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.