Vinstri græn opna formlega kosningaskrifstofu flokksins í Kaupvangi 5 á Egilsstöðum í dag. Í tilkynningu frá flokknum segir að frambjóðendur verði á staðnum og boðið verður upp á tónlistaratriði. Skrifstofan opnar kl. 16.
Stöðvarfjarðardeild Rauða kross Íslands opnar í dag verslun með notuðum og nýjum fatnaði. Verður hún til húsa hjá deildinni að Fjarðarbraut 48, Heimalundi, á móti gömlu símstöðinni á Stöðvarfirði. Þóra Björk Nikulásdóttir er formaður Stöðvarfjarðardeildar RKI.
HK tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöld með því að leggja lið Þróttar Nes í Neskaupstað 0-3 (21-25,12-25,14-25). Lið HK átti afbragðsgóðan leik og gaf engin færi á sér. Fyrsta hrinan var jöfn en heimastúkur náðu ekki að halda kraftinum út alla hrinunaog endaði hún 21-25. Síðari tvær hrinurnar voru nokkuð keimlíkar. HK náði miklu forskotistrax í upphafi í báðum hrinum og náði m.a7 stigum á móti 0 í annari hrinu, eftir það varð ekki við neitt ráðið og virtust þær ekki finna taktinn aftur þrátt fyrir gríðarlegan stuðning áhorfenda sem fylltu íþróttahúsið.
Fylgi Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi eykst verulega samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallups, aðallega á kostnað Framsóknarflokksins. Capacent Gallup mælir fyrir Fréttastofu Ríkisútvarpsins vikulega fylgi við stjórnmálaflokkana og sagði svæðisútvarpið frá þessu í fréttum sínum í gær.
L – listi fullveldissinna mun ekki bjóða fram í komandi Alþingiskosningum og hefur dregið framboð sitt til baka, að sögn vegna ólýðræðislegra aðstæðna. Ákvörðun um þetta var tekin á fundi sem haldinn var í Hafnarfirði í gær. Hreyfingin mun áfram starfa sem frjáls framboðs- og sjálfstæðishreyfing.
Í gær var staðfest samkomulag um rekstur miðstöðvar fólks í atvinnuleit í Fjarðabyggð. Hún verður til húsa að Búðareyri 1 á Reyðarfirði, en einnig verður þjónustu við atvinnuleitendur sinnt í starfsstöðvum AFLs og Þekkingarnets Austurlands víðar í Fjarðabyggð. Þegar er búið að ráða starfsmann til miðstöðvarinnar og er það Guðrún Sælín Sigurjónsdóttir. 475 eru nú skráðir atvinnulausir á Austurlandi, 295 karlar og 180 konur.
Háskóli Íslands hefur ákveðið að gefa stúdentum kost á að nýta aðstöðu í Háskólanum í sumar til að vinna að námi sínu. Einnig er verið að kanna möguleika á að bjóða upp á valin námskeið og að halda skrifleg próf í ágúst. Í þessu sambandi er í mörg horn að líta, s.s. varðandi kostnað, námskeiðaval, gæðakröfur og skipulag og umsýslu. Stórfellt atvinnuleysi stúdenta í sumar er fyrirsjáanlegt. Í tilkynningu frá skólananum segir að hann hafi að markmiði að vinna með stúdentum og stjórnvöldum að því að finna leiðir til að auka þjónustu við stúdenta í sumar eins og nokkur er kostur.