Torvald Gjerde, organisti við Egilsstaðakirkju og Þingmúla- og Vallaneskirkju, er handhafi menningarverðlauna Fljótsdalshéraðs, sem afhent voru í fyrsta sinn 17. júní.
Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis vann á sunnudag 8-0 stórsigur á Leikni Reykjavík í annarri deild kvenna í knattspyrnu en liðin léku á Reyðarfirði. Fyrirliði liðsins segist hafa fulla trú á að liðið geti blandað sér í toppbaráttu deildarinnar.
Sólveig Sigurðardóttir er ein þeirra sem tók þátt í vorsýningu Skaftfells, myndlistarmiðstöðvar Austurlands á Seyðisfirði í ár. Þar sýndu Seyðfirðingar hluti sem þeir hafa safnað í gegnum tíðina, allt frá ritvélum til vespubúa, og segja má að sýningin hafi svo sannarlega endurspeglað fjölbreytta mannlífsflóru staðarins.
Bæjarstjóri Fjarðabyggðar gagnrýnir að í frumvarpi um fiskeldi, sem liggur fyrir Alþingi, sé ekki tryggt að auðlindagjald af eldinu verði með einhverjum hætti eftir á þeim stöðum þar sem eldið er stundað. Talað hafi verið fyrir daufum eyrum þegar forsvarsfólk sveitarfélagsins hafi reynt að vekja máls á þessu.
Sprengjusérfræðingar frá Landhelgisgæslunni eyddu á miðvikudag kassa með sprengiefni sem virðist hafa rekið upp á land Teigarhorns í Berufirði. Ekki er talið að hætta hafi verið á ferðum en aldrei sé of varlega farið þegar sprengiefni er á ferðinni.