Vinstrihreyfingin - grænt framboð (VG) nýtur 28% fylgis í Norðausturkjördæmi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir RÚV og Morgunblaðið. Þar á eftir koma Framsóknarflokkur með 25,6%, Samfylkingin með 21,3%, Sjálfstæðisflokkur með 20%, Borgarahreyfingin 2,8%, Frjálslyndi flokkurinn 1,7% og Lýðræðishreyfingin 0,5%.
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri í dag og undirritaði við það tækifæri reglugerð um stækkun þjóðgarðsins til norðurs. Verður þá Trölladyngja í heild, Askja og stór hluti Ódáðahrauns hluti af þjóðgarðinum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, áformar að koma á nýjum flokki veiða, “strandveiðar”, þar sem heimilaðar verða frjálsar handfæraveiðar við ströndina.
Á ríkisstjórnarfundi þann 14. apríl sl. kynnti hann þau áform sín að fresta úthlutun byggðakvóta nú á þessu fiskveiðiári til að skapa svigrúm fyrir breytta stefnu til styrkingar og örvunar atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum. Ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við þau meginsjónarmið sem felast í áformum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Blátt áfram, félagasamtök um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum, hafa gefið út barnabókina ,,Þetta eru mínir einkastaðir“ í samvinnu við Hagkaup. Sérfræðingar áætla að ein af hverjum fjórum stúlkum og einn af hverjum sex drengjum séu misnotuð kynferðislega áður en þau halda upp á 18 ára afmælið sitt. Þetta þýðir að í öllum kennslustofum og hverfum eru börn sem þjást í hljóði vegna kynferðislegrar misnotkunar. Tilgangur samtakanna Blátt áfram er að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum á Íslandi.
Hugmyndaráðuneytið ásamt menntamálaráðuneytinu vilja vekja athygli á verkefninu Framtíðarsýn þjóðar sem stendur yfir dagana 17. til 24. apríl. Verkefnið er heimaverkefni sem skólar geta boðið nemendum að leysa í faðmi fjölskyldunnar. Verkefninu er ætlað að styrkja tengsl barna og foreldra sem og þjóðarinnar allrar með því veita Íslendingum sterka framtíðarsýn og von.
Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði, sem lengi hafa verið í undirbúningi, hefjast nú í sumar. Hjúkrunarheimilið rís á lóðinni Dalbraut 1 en samningar hafa tekist við Samkaup um að bærinn leysi lóðina og mannvirki á henni til sín. Gert er ráð fyrir að byggð verði 20 ný hjúkrunarrými og komi þau í stað núverandi Hulduhlíðar. Almenn hjúkrunarrými verða 10 og 8 hjúkrunarrými og 2 hvíldarrými verða fyrir heilabilaða. Hjúkrunarheimili eru byggð á kostnað og ábyrgð ríkisins að 85%
en 15% kostnaðar greiðir sveitarfélagið. Rekstrarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Gott samstarf hefur verið við félags- og tryggingamálaráðuneytið um lóðamálin en sveitarfélagið leggur til lóð án gatnagerðargjalda.