Heildarafli íslenskra skipa nam 108.612 tonnum tonnum í mars, sem er verulegur aflasamdráttur frá sama mánuði í fyrra er aflinn var 169.690 tonn. Þar vegur þyngst að engin loðnuveiði var í mars en botnfiskafli var hins vegar tæplega 10% meiri en í mars 2008.
Tilkynnt var á dögunum um úrslit í teiknisamkeppni 9. alþjóðlega skólamjólkurdagsins. Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins stendur fyrir samkeppninni hér á landi. Tæplega 900 teikningar bárust frá 54 skólum í landinu. Tíu nemendur hlutu viðurkenningu og meðal þeirra er Hafþór Ingólfsson í 4. bekk Nesskóla í Neskaupstað.
Það stefnir í góða þátttöku í Ferðafagnaði á Austurlandi og heimamönnum og gestum standa fjölþættir og forvitnilegir viðburðir til boða um allan fjórðung. Ferðafagnaður, kynningar- og hátíðisdagur íslenskrar ferðaþjónustu er næstkomandi laugardag. Austfirðingar eru hvattir til að kynna sér á vefjunum á www.ferdafagnadur.is og www.east.is hvað austfirsk ferðaþjónusta býður þeim að skoða og njóta.
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tekur fyrstu skóflustunguna að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri í dag um kl. 16:45. Gestastofan verður fyrsta byggingin hér á landi sem verður byggð samkvæmt vottuðum vistvænum byggingarstöðlum.Við þetta tækifæri mun umhverfisráðherra jafnframt undirrita reglugerð um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs til norðurs og verður þá Trölladyngja í heild, Askja og stór hluti Ódáðahrauns hluti af þjóðgarðinum.
Sameina á atvinnulífstengda sjóði Fljótsdalshéraðs, Atvinnumálasjóð og Fjárafl, í einn atvinnutengdan sjóð. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkti tillögu þar að lútandi á fundi sínum 8. apríl. Hún kemur upphaflega frá stjórn Fjárafls. Er stefnt að því að sjóðirnir verði sameinaðir á aðalfundi Fjárafls 30. apríl. Gert er ráð fyrir að atvinnumálanefnd sveitarfélagsins fari með stjórn hins nýja sameinaða sjóðs og stefnt að því að hann taki til starfa frá og með 1. október næstkomandi.
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs hefur samþykkt að ganga að tilboði Íslandsbanka í fjármögnun framkvæmda við endurbætur og nýbyggingu Grunnskólans á Egilsstöðum. Náðst hafa fram hagstæðari lánskjör en útlit var fyrir í lok mars. Því er útlit fyrir að fjármögnun byggingu skólans sé tryggð enda eru framkvæmdir þar í fullum gangi.