Kjördæmisráð Frjálslynda flokksins í Norðausturkjördæmi hefur lokið við framboðslista sinn fyrir komandi kosningar. Fyrsta sæti listans skipar Ásta Hafberg Sigmundsdóttir verkefnastjóri á Fáskrúðsfirði og Axel Yngvason verkamaður á Kópaskeri skipar annað sætið. Kári Þór Sigríðarson búfræðingur frá Akureyri er í þriðja sæti og Eiríkur Guðmundsson nemi á Djúpavogi í því fjórða.
Að vanda kemur Austurglugginn þeim til hjálpar sem vita ekki gjörla hvað á að hafa í matinn um helgina og birtir bestu eldhúsleyndarmál matgæðinga blaðsins á vefnum. Uppskriftir að þessu sinni koma frá Dagmar Jóhannesdóttur. Hún býður okkur upp á léttan og ljúfan helgarmat.
Skólahreysti MS var á Austurlandi í gær og kepptu grunnskólar fjórðungsins í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum að viðstöddum mörghundruð gestum. Þröngt var á þingi og feiknamikil stemning þegar blásið var til níunda og síðasta riðils keppninnar.
Hallormsstaðarskóli stóð uppi sem sigurvegari skóla á Austurlandi, með 52,5 stig. Vopnafjarðarskóli náði öðru sæti með 47,5 stig og í þriðja sæti varð Grunnskóli Hornafjarðar.
Alþjóðlega kvikmynda- og myndbandshátíðin 700IS Hreindýraland opnar annað kvöld með pomp og prakt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.
700IS hverfist í ár um myndbandsinnsetningar átta listamanna. Fjórir gestasýningarstjórar frá svipuðum hátíðum eru einnig komnir á svæðið og sýna verk sín.
Sjá nánar á vefnum www.700.is. Hér í framhaldinu er birt dagskrá hátíðarinnar.
Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum, LME, frumsýnir í kvöld kl. 20 leikritið Beðið eftir Go.com Air, (Go-dot-com Air) eftir Ármann Guðmundsson. Leikritið fjallar um hóp Íslendinga sem eru staddir í flugstöð erlendis á leið heim. Þeir lenda í ýmsum hrakningum, sem skapast af seinkun á fluginu.
Bikarmót Skíðasambands Íslands í flokki 13 til 14 ára verður haldið í Oddsskarði á laugardag og sunnudag. Veðurútlit er með ágætum. Mótið er skipulagt af Skíðafélagi Fjarðabyggðar og fjórir af hátt í níutíu keppendum úr Fjarðabyggð. Keppendur koma af öllu landinu. Nánari upplýsingar um mótstilhögun fást á vefsíðunni www.oddsskard.is.
Aðalfundur Landssamtaka sláturleyfishafa, haldinn í Reykjavík 19. mars 2009, varar eindregið við hugmyndum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. ,,Það er alveg ljóst að innganga Íslands í Evrópusambandið myndi á fáum árum orsaka endalok íslensks landbúnaðar eins og hann er í dag. Þúsundir starfa myndu tapast og breyting verða á byggð landsins. Matvælalegt sjálfstæði þjóðarinnar verður ekki tryggt nema með öflugum íslenskum landbúnaði," segir í ályktun samtakanna.