Zúmbakennarin Flosi Jón Ófeigsson frá Eyvindará á Fljótsdalshéraði er meðal þeirra sem bjóða upp á líkamsrækt í gegnum fjarfundabúnað á meðan samkomubanni stendur. Hann segir ánægjulegt að geta sameinað iðkendur frá Austurlandi, Reykjavík og útlöndum í einu undir Eurovision-tónum.
Umhverfisráðherra hefur tryggt tæpar 40 milljónir króna þannig að hægt verði að stöðva olíuleka úr breska olíuskipinu El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar. Bæjarstjóri segir hreinskipta umræðu um lekann síðasta sumar hafa verið stuðandi en nauðsynlega. Töluverð olía er enn í tönkum skipsins.
Að færa veitingavagninn Fjallkonuna var svar aðstandenda Hótel Hildibrands í Neskaupstað við því breyttum veitingamarkaði á tímum covid-19 veirunnar. Þeir segjast treysta á viðskipti heimamanna í sumar sem virðast vera komnir á bragðið af lambakebabi.
Til stendur að fjölga flugferðum milli Reykjavíkur og Egilsstaða um leið og byrjað verður að aflétta takmörkunum samkomubanns. Slíkt mun auka almennt öryggi Austfirðinga en getur þó líka aukið smithættu.
Þrátt fyrir fyrirsjáanlega tekjuskerðingu þá mun þjónusta gagnvart íbúum Fljótsdalshéraðs ekki verða skert né stendur til að draga úr fyrirhuguðum framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins heldur er horft til að þess að auka heldur við fyrirhugað viðhald og framkvæmdir á vegum þess.
Öllum þeim átta Austfirðingum, sem til þessa hafa smitast af Covid-19 veirunni, er batnað. Umdæmislæknir sóttvarna segir þó nauðsynlegt að íbúar haldi áfram vöku sinni og fylgi fyrirmælum því staðan geti breyst hratt. Hann segist ekki hafa skýringar á því hvers vegna Austurland hafi sloppið betur en aðrir landshlutar frá faraldrinum til þessa.