
Bikarmót ungmenna í alpagreinum fært úr Bláfjöllum í Oddskarð með litlum fyrirvara
Um helgina verður haldið bikarmót 12 til 15 ára ungmenna í alpaskíðagreinum í Oddsskarði þar sem saman koma tæplega hundrað keppendur. Til stóð að halda það í Bláfjöllum en aðstæður þar, og reyndar á velflestum skíðasvæðum landsins, eru ekki nógu góðar til mótahalds.
Þó minni snjór sé einnig í Oddsskarði eftir nokkur hlýindi undanfarið og óveðrið mikla í síðustu viku eru þar samt einna bestu aðstæður í öllu landinu til skíðaiðkunar um þessar mundir. Vegna þess bauðst Skíðafélag Fjarðabyggðar (SFF) til að taka að sér mótið á þriðjudaginn var eftir að menn fyrir sunnan höfðu gefið upp alla von um að geta haldið það í Bláfjöllum.
„Það stóð upphaflega til að halda þetta mót um síðustu helgi í Bláfjöllum,“ segir Garðar Eðvald Garðarsson hjá SFF. „Það tókst ekki sökum veðurs þá og þá settu menn stefnuna á næstu helgi en svo varð bara ljóst á þriðjudaginn var að miðað við aðstæður í Bláfjöllum og veðurspá yrði útilokað að nota þá helgina. Við hér buðumst því til að halda mótið hér í Oddsskarðinu, það var samþykkt og nú erum við öll á útopnu að undirbúa hlutina. Það verk gengur vel enda samhent og fórnfúst fólk í félaginu og margir að leggja okkur lið.“
Unnið er að því að færa til snjó í brekkunum svo aðstæður geti orðið með allra besta móti þegar keppendur setja undir sig skíðin á laugardaginn kemur en mótið stendur bæði laugar- og sunnudag. Keppt er í svigi og stórsvigi bæði í flokki 12 til 13 ára og svo 14 til 15 ára.
Sjálfur er Garðar Eðvald afar bjartsýnn á að allt gangi vel þó fyrirvarinn hafi vissulega verið með minnsta móti.
„Ég var örlítið stressaður þarna á þriðjudagskvöld þegar þessi ákvörðun lá fyrir en eftir að hafa skoðað aðstæður og veðurspár auk þess að fá góða hjálp margra á skömmum tíma er ég mjög bjartsýnn núna á að geta haldið flott mót um helgina. Veðurspáin bara með ágætum og vonandi sjáum við sem flesta að fylgjast með. Mér sýnist keppenda fjöldinn vera tæplega hundrað manns og með þeim koma auðvitað foreldrar, þjálfarar og aðrir svo það verður líflegt og skemmtilegt í Oddsskarðinu alla helgina.“