Fótbolti: Höttur/Huginn á toppnum í Lengjubikarnum - Markamyndband

Höttur/Huginn tók forustuna í norðausturriðli Lengjubikars karla í knattspyrnu eftir sigur í toppslag á laugardag. FHL fer hægt af stað í Lengjubikar kvenna.

Höttur/Huginn vann Dalvík/Reyni 3-1 á Fellavelli á laugardag. Stefán Ómar Magnússon, sem snúinn er aftur á heimaslóðir, skoraði strax á þriðju mínútu.

Dalvíkingar jöfnuðu á 60. mínútu en Eyþór Magnússon kom Hetti/Huginn yfir á 77. mínútu og Danilo Milenkovic skoraði þriðja markið á 98. mínútu. Dalvíkingar lögðu þá allt kapp á að jafna en Höttur/Huginn náði skyndisókn. Mörkin má sjá hér að neðan.

Liðin eru efst í riðli 4 í B-deild en þar leika lið af Norður- og Austurlandi. Höttur/Huginn hefur 7 stig úr þremur leikjum en Dalvík/Reynir sex úr þremur leikjum. Tindastóll og Magni eru næst með 3 stig úr 2 leikjum.

KFA spilaði ekki um síðustu helgi en liðið hefur eitt stig eftir tvo leiki. Það fékkst með jafntefli gegn Hetti/Huginn fyrir rúmri viku.

FHL spilar í riðli 2 í A deild en sem kunnugt er tekur liðið þátt í úrvalsdeild kvenna í Íslandsmótinu í sumar. Íslandsmeistarar Breiðabliks komu í heimsókn á sunnudag og unnu 0-7 sigur. FHL hefur farið hægt af stað og tapað fyrstu fjórum leikjunum.

Á það ber þó að horfa með öll liðin að þau eiga eftir að fá til sín erlenda leikmenn áður en Íslandsmótið hefst.

Myndefni: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.