
Fótbolti: Höttur/Huginn á toppnum í Lengjubikarnum - Markamyndband
Höttur/Huginn tók forustuna í norðausturriðli Lengjubikars karla í knattspyrnu eftir sigur í toppslag á laugardag. FHL fer hægt af stað í Lengjubikar kvenna.Höttur/Huginn vann Dalvík/Reyni 3-1 á Fellavelli á laugardag. Stefán Ómar Magnússon, sem snúinn er aftur á heimaslóðir, skoraði strax á þriðju mínútu.
Dalvíkingar jöfnuðu á 60. mínútu en Eyþór Magnússon kom Hetti/Huginn yfir á 77. mínútu og Danilo Milenkovic skoraði þriðja markið á 98. mínútu. Dalvíkingar lögðu þá allt kapp á að jafna en Höttur/Huginn náði skyndisókn. Mörkin má sjá hér að neðan.
Liðin eru efst í riðli 4 í B-deild en þar leika lið af Norður- og Austurlandi. Höttur/Huginn hefur 7 stig úr þremur leikjum en Dalvík/Reynir sex úr þremur leikjum. Tindastóll og Magni eru næst með 3 stig úr 2 leikjum.
KFA spilaði ekki um síðustu helgi en liðið hefur eitt stig eftir tvo leiki. Það fékkst með jafntefli gegn Hetti/Huginn fyrir rúmri viku.
FHL spilar í riðli 2 í A deild en sem kunnugt er tekur liðið þátt í úrvalsdeild kvenna í Íslandsmótinu í sumar. Íslandsmeistarar Breiðabliks komu í heimsókn á sunnudag og unnu 0-7 sigur. FHL hefur farið hægt af stað og tapað fyrstu fjórum leikjunum.
Á það ber þó að horfa með öll liðin að þau eiga eftir að fá til sín erlenda leikmenn áður en Íslandsmótið hefst.
Myndefni: Unnar Erlingsson