
Matej Karlović: „Höttur hefur staðið við bakið á mér frá upphafi“
Króatinn Matej Karlovic hefur verið lykilmaður í körfuknattleiksliði Hattar undanfarin sex keppnistímabil. Hann kann orðið vel við sig á Egilsstöðum þar sem fjölskyldan hefur komist vel inn í samfélagið.Matej, sem spilar sem framherji, var eitt sinn talinn einn efnilegasti leikmaður Króatíu. Hann var orðinn 190 sm á hæð þrettán ára gamall og aðeins fimmtán ára varð hann atvinnumaður.
„Ég stundaði alls konar íþróttir í æsku – fótbolta, handbolta og karate – en það var ekki fyrr en ég var fimmtán ára sem ég áttaði mig á að körfuboltinn var mín framtíð.“
Meiðsli settu strik í reikninginn
Eins og margir íþróttamenn hefur Matej glímt við meiðsli sem settu mark sitt á ferilinn. Þegar hann var 20 ára sleit hann liðbönd í hné og var frá keppni í heilt ár. „Þegar ég kom aftur fann ég að eitthvað hafði breyst. Ég var í vanda með bólgur og bjúg í hnénu,“ segir hann.
Meiðslin áttu eftir að fylgja honum, en hann neitaði að gefast upp. Hann hætti tímabundið í körfubolta, fór að vinna og þyngdist um 15 kíló. En ástríðan fyrir leiknum var of mikil.
„Ég ákvað að reyna aftur og tilviljun réði því að ég endaði hér. Ég var upphaflega í sambandi við lið í Reykjavík, en svo fékk ég símtal frá samlanda mínum, Dino Stipčić, sem lék með Hetti. Hann sagði: „Þú verður að koma, þetta er lítill bær og allt snýst um félagið.“ Ég svaraði: „Ég reyni.““
Frá stríðshrjáðri Króatíu til Íslands
Matej fæddist í austurhluta Króatíu árið 1989, aðeins tveimur árum áður en Júgóslavíustríðið braust út.
„Pabbi var lögreglumaður í fyrrum Júgóslavíu og tók þátt í stríðinu. Á meðan á því stóð flúðum við til Þýskalands, en pabbi og systir mín voru í Slóveníu. Þegar allt róaðist komum við heim, en raunveruleikinn var myrkur – rústir alls staðar, skotgöt í húsum.“
Þrátt fyrir erfiðar aðstæður segir hann að barnæskan hafi verið litríkt tímabil. „Við vorum börn og við lékum okkur eins og börn, þó að umhverfið væri fullt af minjum um stríð.“
Matej kynntist konu sinni, Maju, þegar þau voru í menntaskóla, og hafa þau verið saman síðan. „Við eyddum mörgum árum í fjarsambandi því ég spilaði um alla Evrópu en hún var í námi og vinnu. En traustið var alltaf til staðar.“
Fjölskyldan sameinuð á Egilsstöðum
Maja Karlović, eiginkona Matej, er með meistaragráðu í líftækni- og matvælafræði og starfaði í Króatíu sem sérfræðingur í örverufræði við vatnsgreiningar. Hún vinnur nú hjá Heilbrigðiseftirliti Austurlands.
Eftir að þau eignuðust dóttur sína Söru árið 2018 varð fjarbúðin erfið. Þegar sonur þeirra Gabriel fæddist 2021 tók Maja þá ákvörðun að flytja til Íslands með börnin. „Ég kom hingað ein með þriggja ára dóttur og tveggja mánaða son. Ég man að þegar við lentum á Egilsstöðum gat ég ekki hætt að gráta – hvort sem það var gleði, þreyta eða ótti,“ segir hún.
Fyrsti veturinn erfiðastur
Fyrsti veturinn var krefjandi fyrir Matej. „Myrkrið tók á mig. Ég man þegar ég fór heim um jólin, ég hugsaði um að koma ekki aftur. En svo snéri ég samt aftur í myrkrið,“ rifjar hann upp.
Eftir að fjölskyldan kom á Egilsstaði breyttist viðhorfið. Þau hafa fundið sér hús nærri skólanum og finna fyrir öryggi í samfélaginu. „Við vitum að við erum velkomin, og það verður bara betra eftir því sem við lærum tungumálið,“ segir Matej.
Hann er ánægður með aðbúnaðinn hjá Hett. „Félagið hefur staðið á baki mér frá upphafi.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.