![](/images/stories/news/2025/karfa_hottur_tindastoll_jan25_0003_web.jpg)
Körfubolti: Áfram syrtir í álinn hjá Hetti
Staða Hattar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik versnaði enn frekar með 92-58 ósigri gegn Val á föstudagskvöld. Tækifærunum sem liðið hefur til að reyna að bjarga sér frá falli fækkar hratt.Höttur byrjaði vel og var 17-19 yfir eftir fyrsta leikhluta. Liðið var yfir þar til um miðjan seinni hálfleik þegar allt snérist. Fyrst komst Valur yfir 33-32 og strax í kjölfarið fékk miðherjinn Nemanja Knezevic brottvísun þegar hann fékk á sig tvær tæknivillur í röð fyrir mótmæli.
Það var blóðtaka fyrir Hött því Knezevic var búinn að eiga góðan leik, skora sjö stig og taka sex fráköst. Það sást að þetta riðlaði leik Hattar því liðið skoraði aðeins eina körfu það sem eftir var af fyrri hálfleik. Þegar kom að leikhléi var Valur kominn 50-34 yfir.
Þriðji leikhluti var áfram máttlítill, Valur var yfir eftir hann 76-49. Fjórði leikhluti nýttist helst til að gefa leikmönnum sem lítið hafa spilað í vetur mínútur.
Það segir sitt að enginn leikmaður Hattar komst í yfir 10 stig. Á móti er það kannski eina jákvæða úr leiknum að stigaskorið dreifðist þokkalega, þeir David Ramos og Gustav Suhr-Jessen voru stigahæstir með níu stig. Matej Karlovic, sem glímt hefur við þrálát meiðsli undanfarið ár, var ekki með.
Hvað þýða úrslitin?
Höttur deilir fallsætunum með Haukum, bæði lið hafa átta stig. Sex stig eru upp í Keflavík sem hefru betur gegn Hetti í innbyrðisviðureignum. Staðan þýðir að til að eiga raunhæfa möguleika á að halda úrvalsdeildarsætinu þarf Höttur að vinna þá fimm leiki sem eftir eru.
Fjórir þeirra eru gegn liðum í neðri hlutanum en sá fimmti gegn Stjörnunni, öðru toppliðanna. Það er næsti leikur á fimmtudag.
Það er hins vegar áhyggjuefni, miðað við atvik leiksins gegn Val, að mórallinn virðist vera að bresta hjá Hetti. Þegar staðan er orðin slík koma upp atvik þar sem leikmenn láta reka sig út af með tvær tæknivillur og allt hrynur í kjölfarið. Það þýðir hins vegar ekki annað en halda áfram að reyna.