Eyvindur Warén á Ólympíuleika æskunnar

Skíðamaðurinn Eyvindur Halldórsson Warén frá Fljótsdalshéraði verður meðal fulltrúa Íslands á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem haldin er í Georgíu í næstu viku.

Ísland sendi alls 15 þátttakendur á mótið sem haldið er í borginni Bakuriani. Eyvindur er einn af átta keppendum í alpagreinum. Alpagreinafólkið leggur af stað til Georgíu á morgun.

Leikarnir hefjast á sunnudag en keppni í alpagreinum á mánudag. Þá verður keppt í stórsvigi karla. Svigkeppni karla er síðan á fimmtudaginn eftir viku.

Eyvindur er skráður hjá Skíðasambandi Íslands á vegum UÍA en þannig keppa austfirskir skíðaiðkendur á landsvísu. Hann kemur upphaflega úr Skíðafélaginu í Stafdal en hefur síðustu vetur æft með Skíðafélagi Akureyrar enda er hann í námi í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Síðasta mót Eyvindar fyrir leikana var á Dalvík um miðjan janúar. Þar komst hann á verðlaunapall í sínum flokki og fullorðinsflokki í svigi.

Mynd: Aðsend/Pedromyndir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar