Karfa: Höttur kominn í verulega fallhættu eftir tap gegn Tindastóli

Höttur þarf að vinna að minnsta kosti helming þess leikja sem liðið á eftir í úrvalsdeild karla í körfuknattleik til að eiga einhverja von um að halda sér í deildinni. Liðið tapaði í gær fyrir Tindastóli á heimavelli 85-97.

Höttur fór ágætlega af stað í fyrsta leikhluta, var yfir eftir hann 26-23. Liðið hitti vel úr skotum sínum og virtist vera með gott upplegg í sókninni sem leikmenn fóru eftir. Vandamálið var hins vegar mistök, liðið tapaði nokkrum boltum klaufalega og í hvert sinn refsaði Tindastóll.

Um miðjan annan leikhluta komst Tindastóll yfir. Gestirnir náðu síðan átta stiga forskoti en Höttur hleypti þeim ekki lengra frá sér, heldur minnkaði muninn og hefði getað jafnað úr síðustu sókn fyrri hálfleiks. Það tókst ekki og því munaði þremur stigum, 48-51 í leikhléi.

Höttur byrjaði skelfilega í þriðja leikhluta, tapaði boltanum í fyrstu þremur sóknunum og í öll skiptin refsaði Tindastóll með körfu. Þar með skapaðist tíu stiga forskot sem gestirnir héldu nokkuð þægilega út leikhlutann. Flautukarfa nærri miðju tryggði þeim 15 stiga forustu, 65-80.

Eftir tvær mínútur í fjórða leikhluta var leikurinn opinn á ný, Höttur hafði skorað tíu stig í röð og lagað stöðuna í 75-80. Tindastóll tók leikhlé og kom muninum aftur yfir 10 stig með tveimur þriggja stiga körfum í röð.

Eftir það hafði liðið stjórn á leiknum. Höttur reyndi að bregðast við stöðunni, en náði aldrei alvöru áhlaupi og þannig fjaraði leikurinn í raun út. Obie Trotter var stigahæstur Hattar með 24 stig.

Tindastóll vann án einhverrar flugeldasýningar í gærkvöldi en liðið átti þó virkilega góðan seinni hálfleik. Hins vegar mátti aldrei líta af liðinu, þá refsaði það. Höttur spilaði að mörgu leyti fínan leik, sérstaklega í sókn, en tókst aldrei að loka almennilega á sóknaraðgerðir Tindastóls.

Hvað þýða úrslitin fyrir Hött?


Úrslit leiksins og annarra í gærkvöldi gera það að verkum að Höttur er kominn í verulega vonda stöðu. Liðið deilir botnsætinu með Haukum, bæði lið hafa átta stig. Eftir gærkvöldið eru hins vegar orðin sex stig upp í næstu lið, fimm eru með 14 stig. Þau munu bæta við sig því þau eiga innbyrðis leiki strax í kvöld.

Höttur á sex deildarleiki eftir. Þrír sigrar myndu koma liðinu í 14 stig, jafna hin liðin. Eitt þeirra þarf því gjörsamlega að brotlenda til að Höttur eigi möguleika tölfræðilega möguleika. Liðið þarf því helst að vinna fjóra af þeim leikjum sem það á eftir til að eiga raunhæfa möguleika á að halda sér í deildinni.

Það góða er að Höttur á eftir að spila við öll þessi fimm lið sem eru næst fyrir ofan það í deildinni og byrjar á Val í Reykjavík eftir viku. Þar á eftir er heimaleikur gegn toppliði Stjörnunnar og svo tveggja vikna frí í deildinni áður en leikið verður við hin fjögur í mars.

Í kvöld rennur út sá frestur til félagaskipta. Ekki hafa borist neinar fréttir um mögulegar breytingar á leikmannahópi Hattar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.