Körfubolti: Höttur strandaði á varnarmúr Njarðvíkur

Höttur tapaði í gærkvöldi fyrir Njarðvík 76-91 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Þótt lokamunurinn væri ekki stór virtist Höttur aldrei eiga möguleika á að saxa á hann.

Höttur byrjaði betur en eftir að staðan hafði verið 12-8 skoruðu gestirnir 20 stig í röð. Þar með var kominn munur sem Hetti tókst aldrei að brúa. Skömmu fyrir leikhlé átti liðið góðan kafla og náði að koma muninum niður í 38-47.

Sá munur hélst framan af þriðja leikhluta en þegar leið á hann herti Njarðvík heldur tökin á ný. Í fjórða leikhluta var munurinn gjarnan upp undir 20 stig. Aðeins í lokin, þegar Njarðvík slakaði á klónni, komst Höttur aðeins nær.

Hvað gerðist?


Um miðjan fyrsta leikhluta var eins og Hattarmenn lentu á múr. Njarðvíkingar eru með hávaxna og líkamlega sterka leikmenn undir körfunni, þar fremstan Dominykas Milka. Það var sem Hattarmenn þyrðu varla inn í teiginn.

Að sú ógn væri úr sögunni gerði bakvörðum Njarðvíkur kleift að stíga framar í vörninni og mæta Hattarmönnum. Þeir áttu ekki gott kvöld, í til dæmis fyrstu innkomu Adams Heede-Andersen tapaði hann boltanum þrisvar sinnum í röð. Hann jafnaði sig eftir það og átti ágætan leik en skaðinn var skeður. Njarðvíkingar stálu boltanum sókn eftir sókn og fengu auðveldar körfur.

Sem dæmi um yfirburði Njarðvíkur undir körfunni þá tóku leikmenn þeirra 40 fráköst gegn 19 Hattar. Með öðrum orðum, Höttur fékk nær aldrei annað tækifæri í sókn ef fyrsta skotið geigaði. Í fyrri hálfleik voru skotin oft úr erfiðum færum.

Niðurstaðan


Fimmtán stiga munur er þægilegur en ekki öruggur í körfubolta. Hattarmenn virtust hins vegar aldrei hafa burði til að saxa af ráði á forskotið í seinni hálfleik. Þeir virtust undir gegn Njarðvík á öllum sviðum.

„Við vorum undir í öllum þáttum leiksins. Við mættum ekki með ákveðnina sem þarf til að vinna góð körfuboltalið. Því fór sem fór – bara viðbjóður. Það var ekkert sem kom okkur á óvart. Þeir gerðu hlutina betur en við,“ sagði Adam Eiður Ásgeirsson, fyrirliði Hattar eftir leikinn.

Obie Trotter var einni leikmaður Hattar sem virtist nokkuð eðlilegur, skoraði 21 stig, hitti ágætlega utan þriggja stiga línunnar og stal nokkrum boltum í vörninni. Höttur hefur unnið tvo af fyrstu fjórum leikjum sínum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar