Í fyrra tók Húsafriðunarnefnd upp þá nýjung að veita viðurkenningu fyrir störf að húsverndarmálum og beindi þá sjónum sínum að varðveislu á gömlum verslunarinnréttingum og hvernig mætti nýta þær við nútímalegar aðstæður. Núna hefur nefndin ákveðið að vekja athygli á merku brautryðjendastarfi, sem unnið er úti á landsbyggðinni – oft við erfiðar aðstæður og takmarkaðan skilning – og heiðra tvo aldna forvígismenn húsverndar á Eskifirði, þá Hilmar Bjarnason og Geir Hólm.
Leit hefur verið hætt að manni sem saknað er eftir að bátur hans fékk á sig brot og hvolfdi við Skrúð í Fáskrúðsfirði í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Hefur svæðið þar sem báturinn fórst verið leitað afar vel í allan dag af björgunarsveitum af Austurlandi, nærstöddum bátum og skipum og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Einnig hafa kafarar tekið þátt. Verið er að draga bátinn sem fórst til hafnar á Fáskrúðsfirði og er von á honum þangað eftir tvo til þrjá tíma.
Bóndi á Stórhól í Hamarsfirði hefur verið dæmdur til greiðslu sektar vegna brota á lögum um dýravernd og búfjárhald. Greiðslan nemur 80 þúsund krónum. Héraðsdómur Austurlands úrskurðaði þetta í vikunni. Auk vanfóðrunar þótti ákæruvaldinu umgengni á jörðinni refsiverð en mikill óþefur er sagður hafa legið frá lambs- og hundshræjum sem fundust nálægt fjárhúsinu.
Kraumur, tónlistarsjóður, veitti í dag viðurkenningar fyrir sex hljómplötur sem þóttu skara fram úr í íslenskri plötuútgáfu á árinu. Er þetta annað árið í röð í dag sem slík viðurkenning er veitt. Hljómsveitin Bloodgroup, sem m.a. skartar tónlistarmönnum frá Egilsstöðum, átti eina af plötunum sex, hina nýju Dry Land. Kraumur mun styðja við plöturnar og jafnframt auka við möguleika listamannanna, sem að þeim standa, til að koma verkum sínum á framfæri utan landsteinana.
Fljótsdalshérað hefur auglýst aðstöðu nýs tjaldstæðis á Egilsstöðum til leigu næstu fjögur ár, með möguleika á framlengingu. Gert er ráð fyrir að leigutaki sjái um allan daglegan rekstur tjaldstæðisins og umhirðu ásamt markaðssetnigu þess. Tilboðsfrestur rennur út 11. janúar 2010.
Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda mótmælir fyrirhuguðum breytingum á skipulagi Stjórnarráðsins sem fela í sér að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið. Stjórnin sendi frá sér ályktun þessa efnis 15. desember sl.
Smábátur strandaði við eyna Skrúð í Fáskrúðsfirði í morgun. Tveir menn voru um borð og er annars þeirra saknað en hinum tókst að bjarga. Kallaðar hafa verið út björgunarsveitir allt frá Vopnafirði til Hornafjarðar og eru þær ýmist á leið á staðinn eða komnar. Einnig hafa verið kallaðir til í það minnsta sex kafarar. Björgunarbátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru á staðnum, auk báta af svæðinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leið á slysstað.
Sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hf. hefur fylgt í fótspor fleiri sjávarútvegsfyrirtækja og greiðir starfsmönnum fyrirtækisins í landi tvöfalda desemberuppbót í desember.
Vísir hf. er útgerðar-, framleiðslu- og sölufyrirtæki. Starfstöðvar þess eru á fjórum stöðum á landinu; í Grindavík, á Þingeyri, á Húsavík og á Djúpavogi. Höfuðstöðvar Vísis eru í Grindavík.