Á norðaustanverðu landinu snjóaði víða nú í morgunsárið og vindur var úr norðvestri, 14-19 m/sek. Á Austfjörðum er rigning eða slydda, snjókoma til fjalla og 7-17 m/sek. Hiti rétt ofan við frosmark.
Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er stórhríð á Fjarðarheiði og 15 m/sek. Skafrenningur, krapi og snjór er á Fagradal og 14 m/sek og hálkublettir á Oddskarði. Öxi er ófær og á Breiðdalsheiði er þæfingur og stendur samkvæmt korti Vegagerðarinnar til að moka þar. Vegfarendur er beðnir að kynna sér færð á vegum áður en lagt er upp.
Laugardaginn 16. maí verður síðasta fimleikamót vetrarins í 1. deild Fimleikasambands Íslands haldið á Egilsstöðum.Aðkomufólk gæti orðið á fjórða hundrað talsins og keppendur verða um þrjú hundruð að meðtöldum keppendum fimleikadeildar Hattar. Auður Vala Gunnarsdóttir segir mótið verða eitt af þeim glæsilegri á þessum fimleikavetri sem nú er senn á enda. Mörg af bestu liðum landsins komi til mótsins. Í dag verður í Hettunni á Egilsstöðum haldinn undirbúningsfundur vegna mótsins og þeir sem vilja og geta lagt deildinni lið við undirbúninginn eru boðnir velkomnir. Fundurinn hefst kl. 18.
Fimm hundruð og áttatíu fyrirtæki í landinu eru komin í greiðsluþrot frá síðustu áramótum og hafa þrjú hundruð og nítján þeirra verið tekin til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt tölum frá Creditinfo eru 78 byggingarfyrirtæki meðal þeirra og 61 fyrirtæki í verslun og þjónustu. Spáir Creditinfo að um þrjú þúsund og fimm hundruð fyrirtæki fari í gjaldþrot á árinu.
Leikskólabörn af leikskólanum Tjarnarlandi á Egilsstöðum og mæður þeirra sýndu tilþrif í íþróttahúsi bæjarins í morgun undir villtum trumbuslætti. Var börnum og mæðrum boðið í afró-sveiflu í tilefni af mæðradeginum á sunnudag. Afríska trommutónlistin náði augljóslega vel til krakkanna sem sveifluðu sér í dansinum ekki síður en mömmurnar.
Zik Zak kvikmyndir og Gunnar B. Guðmundsson leikstjóri Astrópíu leita að fólki frá 14 ára og upp úr í aðal- og aukahlutverk kvikmyndar byggðri á sögunni Gauragangur eftir Ólaf Hauk Símonarson.Fólk getur komið í Sláturhúsið á Egilsstöðum í dag fram til kl. hálffjögur og látið máta við sig hin ýmsustu hlutverk, meðal annars aðalhlutverk sjálfs Orms Óðinssonar.
Á Norðaustur- og Austurlandi er vetrarfærð. Snjóþekja og éljagangur er á Víkurskarði og ófært er á Hólasandi. Snjóþekja og éljagangur er á Mývatnsheiði og þæfingsfærð og skafrenningur á Mývatns - og Möðrudalsöræfum og snjóþekja og skafrenningur á Vopnafjarðarheiði. Snjóþekja er á Sandvíkurheiði, Vatnsskarði eystra og einnig út við ströndina. Þæfingsfærð og snjókoma er á Fjarðarheiði og snjóþekja á Fagradal. Hálkublettir og skafrenningur eru á Oddskarði. Snjóþekja er á Breiðdalsheiði og ófært er á Öxi.
Á fundi sínum 6. maí samþykkti stjórn Neytendasamtakanna svohljóðandi ályktun um húsnæðisskuldir heimilanna:
Stjórn Neytendasamtakanna minnir á að allt frá hruni bankakerfisins í byrjun október hefur það verið markmið bæði fyrri ríkisstjórnar og þeirrar sem nú situr að tryggja stöðu heimilanna í landinu og sérstaklega þeirra sem lakast standa.