Stjórn Þróunarfélags Austurlands hefur fallist á ósk framkvæmdastjóra félagsins, Stefáns Stefánssonar, um að hann fái að láta af störfum þar sem hann hefur ákveðið að skipta um starfsvettvang. Skipuð hefur verið framkvæmdastjórn með fulltrúum Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, sem mun vinna með starfsmönnum þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn.
Austurgluggi þessarar viku hefur auk frétta meðal annars að geyma umfjallanir um Þorpið, nýtt og forvitnilegt samstarfsverkefni Þróunarfélags, Þekkingarnets og Menningarráðs Austurlands og Þjóðahátíð Austfirðinga, sem haldin verður á Vopnafirði á morgun. Austurglugginn fæst á betri blaðsölustöðum.
Í nýjum Austurglugga má meðal annars lesa um áform Alcoa Fjarðaáls um að reisa kersmiðju sem skapa mun mörg ný störf, 47 ára farsælt starf Lellýar (Þuríðar K. Guðlaugsdóttur) með reiðfirsku ungviði, 30 ára afmæli Menntaskólans á Egilsstöðum í vikunni og 90 ára minningu Alþýðuskólans á Eiðum. Sigmundur Ernir Rúnarsson alþingismaður skrifar um atvinnumál og sagt er frá því þegar Smári Geirsson talaði á tímabili eins og erkiíhald og knúskyssti Framsóknarkonur. Blað allra Austfirðinga fæst á betri blaðsölustöðum.
Föstudaginn 30. október mun Þekkingarnet Austurlands í samvinnu við Skólaskrifstofu Austurlands og fleiri fræðslustofnanir standa að málþingi um lesblindu. Dagskráin er mjög fjölbreytt og ætti að höfða til allra þeirra sem málið snertir. Málþingið er haldið í Fróðleiksmolanum (Afls-húsinu) á Reyðarfirði og hefst kl. 12:30. Málþingið er öllum opið.
Vaxtarsamningur Austurlands hefur stutt við um 60 verkefni til atvinnusköpunar á Austurlandi. Verkefnin eru misstór og ná yfir alla geira, þar á meðal iðnað, framleiðslu, ferðaþjónustu, sjávarútveg, menningu, matvæli og landbúnað. Samningurinn er innan vébanda Þróunarfélags Austurlands.
Hundrað og tuttugu börn úr æskulýðsfélögum kirkjunnar á Austurlandi fá ekki að fara á Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar vegna ótta við H1N1-flensuna. Halda á mótið í Vestmannaeyjum um næstu helgi og höfðu 570 börn verið skráð á mótið.
Nú í vikunni stendur yfir kynning á hönnunar og nýsköpunarverkefninu Þorpinu – skapandi samfélagi á Austurlandi. Í gærkvöld var önnur kynning af tveimur og hin síðari verður í kvöld í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Blásið verður svo til málþings á Eiðum nú á fimmtudagskvöld.Meginhugmynd Þorpsins er atvinnusköpun á sviði hönnunar og framleiðslu á nytjahlutum.
Stjórn AFLs Starfsgreinafélags mun fela lögmönnum félagsins að stefna umsjónarmönnum peningamarkaðssjóðs Landsvaka vegna þess tjóns sem félagið varð fyrir við uppgjör sjóðsins.
Tilefni stefnunnar er að félagið telur að sjóðsstjórar Landsvaka hafi blekkt félagið til fjárfestinga þegar ljóst var að áhættudreifing var óásættanleg.
Að vanda er margt forvitnilegt í fréttablaði Austurlands. Má þar nefna viðtal við Tinnu Halldórsdóttur um niðurstöður rannsóknar hennar á hag austfirskra kvenna og afrakstri þeirra á uppgangstímanum kringum virkjunar- og stóriðjuframkvæmdir og viðtal við ungan Austfirðing, Birnu Pétursdóttir, sem er að stíga sín fyrstu skref í virtum leiklistarskóla á Bretlandseyjum. Hákon Viðarsson, starfsmannstjóri Síldarvinnslunnar gefur fínar uppskriftir fyrir helgina og sagt er í máli og myndum frá skemmtilegum göngudegi á Fáskrúðsfirði. Austurglugginn fæst á betri blaðsölustöðum.