Eftir bankahrunið og með auknu atvinnuleysi hófst umræða á Fljótsdalshéraði um hvort unnt væri að koma á fót miðstöð, verkstæði eða nokkurs konar iðngörðum í því skyni að virkja hugmyndir, skapa atvinnu og stuðla að framleiðslu á austfirsku gæðahandverki og hugviti. Verkefninu hefur nú verið ýtt úr vör af stoðstofnunum á Austurlandi; MenningarráðiAusturlands, Þróunarfélagi Austurlands og Þekkingarneti Austurlands og kallast það Þorpið.
Stofnuð hafa verið Skelræktarsamtök Austurlands. Markmið félagsins er að sameina þá aðila sem fást við skelrækt í fjórðungnum og gera hana að arðbærum atvinnuvegi í framtíðinni og útflutningsvöru. Mikil eftirspurn er eftir kræklingi í Evrópu. Skel er nú ræktuð í Eskifirði, Reyðarfirði, Mjóafirði og Bakkafirði.
Bilun hefur komið upp í ljósleiðara Mílu á Austurlandi, þar sem ljósleiðari hefur slitnað á milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða. Ekki liggur fyrir hvað olli slitinu, en bilanagreining stendur yfir. Viðgerðamenn eru lagðir af stað á staðinn til að skoða aðstæður.
Í Austurglugga vikunnar er auk frétta meðal annars fjallað um sýningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs á Saumastofunni, Þjóðahátíð Austfirðinga, duglegt handavinnufólk í Hulduhlíð á Eskifirði og frumflutning á nýju austfirsku útvarpsleikriti. Þá er sagt frá lukkulegum fimm ára gömlum Fáskrúðsfirðingi sem vann myndavél í ljósmyndasamkeppni Austurgluggans.
Hafliði Hafliðason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands tímabundið, í kjölfar uppsagnar Stefáns Stefánssonar framkvæmdastjóra félagsins. Þá hefur verið skipuð þriggja manna framkvæmdastjórn félagsins. Stjórnin mun ekki þiggja starfsframlag fráfarandi framkvæmdastjóra á uppsagnartímanum. Fyrirtæki í eigu Stefáns þáði 26 milljónir króna greiðslu við sölu Malarvinnslunnar til Kaupfélags Héraðsbúa haustið 2007.
Fyrirtæki í eigu fyrrverandi framkvæmdastjóra Þróunarfélags Austurlands þáði 26 milljóna króna greiðslu við sölu Malarvinnslunnar til Kaupfélags Héraðsbúa haustið 2007. Ríkisútvarpið greindi frá þessu í svæðisfréttum sínum í dag.
Austurglugginn fékk 3.621 heimsókn síðustu viku októbermánaðar, samkvæmt samræmdri vefmælingu Modernus. Það er um 120% aukning frá vikunni þar á undan og það mesta sem vefurinn hefur fengið á árinu þó að í þrjú önnur skipti hafi heimsóknir farið í um 3.200 heimsóknir.
Viðgerð er lokið vegna bilunar sem kom upp í ljósleiðarakerfi Mílu á Austurlandi um
kl. 10 í morgun. Viðgerð lauk um kaffileytið. Bilunin stafaði af sliti á
ljósleiðara á milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða.
,,Austfirðingar eru einstaklingshyggjumenn og hugsa ekki um sig sem heild; hver er sinnar gæfu smiður, ég bjarga mér, ég á mína eigin pumpu.“ Þetta segir Tinna Halldórsdóttir, sem gert hefur rannsókn á stöðu kvenna á Austurlandi, að tilstuðlan Tengslanets austfirskra kvenna. Rannsóknin er hluti af meistaraverkefni í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hún tók ítarleg viðtöl við fjórtán konur í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði og lagði niðurstöðurnar fyrir rýnihóp.