Skapar væntanlega 15 ný störf
Ýmsar tillögur Norðausturnefndarinnar virðast ætla að verða að veruleika. Nýsköpunarmiðstöð mun verða sett á fót á Egilsstöðum og Húsavík fyrripart ársins og koma á upp mennta-, menningar- og nýsköpunarsetri á Vopnafirði. Á að veita átta milljónum króna til verkefnisins og ráða í 1,5 stöðugildi. Þá stendur til að ráða einn starfsmann á Seyðisfirði til að samþætta þar ýmiss konar menningarstarfsemi með aðkomu menningarstofnana sem þar eru fyrir.
Auglýst eftir forstöðumanni Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Austurlandi
Stjórn Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands hefur auglýst laust til umsóknar starf forstöðumanns Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, sem staðsett er á Egilsstöðum. Setrið er vettvangur fyrir samstarf Háskóla Íslands við sveitarfélög á Austurlandi, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Það starfar m.a. í náinni samvinnu við Þekkingarnet Austurlands.
SSA ályktar vegna heilbrigðisþjónustu
Framkvæmdaráðs Sambands sveitarfélaga á Austurlandi ályktaði á fundi sínum 23. mars. sl. um rekstur Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og sendi ráðherra heilbrigðismála: ,,Eftir ágætan fund með þér heilbrigðisráðherra á Egilsstöðum 10. mars sl og síðan fund framkvæmdaráðs SSA með framkvæmdastjóra HSA 23. mars hafa málin eðlilega verið rædd hér heimafyrir. Þungi er allnokkur í umræðunni. Það er krafa samfélagsins hér á Austurlandi að grunnþjónustan verði varin og hún ekki skert.
Vegfarendur sýni aðgæslu
Snjókoma eða éljagangur er á norðan- og austanverðu landinu, en annars bjart með köflum. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu þegar líður á daginn. Norðan og norðvestan 5-13 og víða dálítil él á morgun. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum. Á Norðausturlandi er snjóþekja og éljagangur og þungfært um Mývatnsöræfi. Á Austurlandi er hálka á öllum vegum og snjóþekja. Þæfingsfærð er á Vopnafjarðarheiði. Skafrenningur og hálka er á Fjarðarheiði, hálka á Oddsskarði, skafrenningur og hálka á Fagradal Ófært er um Breiðdalsheiði og snjór og hálka á Vatnsskarði.
Ríkið yfirtaki eignir skuldara
L-listi fullveldissinna vill að ríkið stofni sérstakan sjóð sem yfirtekur fasteignir þeirra fjölskyldna sem hafa skuldsett sig umfram fjárhagslega getu. Fyrri eigendur fái síðan forleigurétt og forkaupsrétt að eignunum. Aðferð þessi er þekkt og var notuð hér á landi með góðum árangri í Kreppunni miklu á fjórða áratug 20. aldar.
Nýr Austurgluggi kominn út
Að vanda er fjölbreytt efni í fréttablaði Austfirðinga. Fjallað er meðal annars um endurfundinn íshelli í Eyjabakkajökli, stóra samhæfingaræfingu björgunarsveita á Austurlandi, opinber störf tíkurinnar Codie og litið er inn á opnun 700.IS Hreindýralands. Samfélagsspegillinn er í höndum Andrésar Skúlasonar á Djúpavogi og aðsendar greinar fjalla um Norðfjarðargöng og upplifun útlendings sem starfað hefur á Austurlandi síðustu árin. Auk frétta og íþrótta er svo matgæðingurinn sívinsæli með sínar lokkandi uppskriftir. Fæst á betri blaðsölustöðum.
Hvað eru raunhæfar lausnir fyrir heimilin í landinu?
Ásta Hafberg Sigmundsdóttir skrifar:Ég hef hugsað mikið um það eftir fall bankakerfisins okkar og því sem á eftir hefur fylgt hvað á að gera fyrir okkur hér í þessu landi. Einhvern veginn sit ég í hvert skipti sem nýjar lausnir og hugmyndir koma upp á borðið varðandi heimilin og skuldastöðu þeirra með annað hvort óbragð í munninum eða tilfinningu fyrir því að ekki hafi verið hugsað lengra en til dagsins á morgun þegar hugmyndinni var komið á framfæri.