Met var slegið í jarðgangagreftrinum í síðustu viku, þegar rúmlega 136 m voru lagðir að baki í heildina. Eskifjarðarmegin voru grafnir 75,2 m og var grafið í basalti og kargabergi. Rauðleitt smit er á kargaberginu og sjást þess merki á fyllingum við ós Eskifjarðarár.
Nýr ós Lagarfljóts var opnaður á ný á sunnudag en tilraunir til að beina fljótinu um hann í janúar mistókust. Reynt er að beina ósnum til austurs til að varna því að jökulvatn berist upp í veiðiár í norðanverðum Héraðsflóa.
Héraðslisti, Sjálfstæðisflokkur og Á-listi ætla að byrja að ræða saman um myndun meirihluta í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Ekki virðist ætla að ganga að koma saman fjögurra flokka meirihluta.
Sigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, segir það hafa komið á óvart að heyra af því að Framsóknarflokkurinn hefði slitið meirihlutaviðræðum við Á-listann. Upp er komin ný staða sem meta þurfi í rólegheitum og finna bestu lendinguna.
Ekki eru uppi áform um siglingar Norrænu til Húsavíkur eða Þorlákshafnar. Framkvæmdastjóri Smyril-Line staðfestir að ekki sé til skoðunar að sigla til Húsavíkur.
Oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs segir menn hafa einblínt á vandamálin fremur en tækifærin við hugsanlegt allra samstarf í bæjarstjórn án formlegs meirihluta. Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir að hugmyndin sé ágæt en menn virðist ekki hafa hugsað hana til enda.
Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í tveggja mánaða fangelsi fyrir að reyna að múta lögreglumönnum til að henda fíkniefnum sem þeir fundu við leit á heimili hans í Lagarfljótið.
Framsóknarflokkurinn á Fljótsdalshéraði hefur lagt fram hugmyndir um samstarf allra flokka í bæjarstjórn. Þar með er viðræðum flokksins við Á-lista um áframhaldandi meirihlutasamstarf lokið. Oddviti Framsóknar segir listann nú bíða eftir viðbrögðum hinna.
Á-listi, Sjálfstæðisflokkur og Héraðslistinn ætla að halda áfram viðræðum um myndun meirihluta í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Flokkarnir funduðu í fyrsta sinn saman í dag um myndun meirihlutans.
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á síðasta fundi sínum allt að fimm miljóna króna framlag í atvinnuátak ungs fólks. Bæjarstjórinn segir vilja til að styðja við ungmenni sem séu að taka sín fyrstu skref á almennum vinnumarkaði.
Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Fljótdalshéraði, segir flokkinn skoða alla möguleika á meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn með opnum hug. Farið verður yfir hugmyndir Framsóknarmanna um samstarf allra lista í bæjarstjórn síðar í dag og sömuleiðis möguleikann á áframhaldandi viðræðum við Á-listann.
Í gærkvöldi slitnaði upp úr meirihlutaviðræðum Á-lista og Framsóknarmanna um áframhaldandi samstarf í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Oddviti Á-listans efast um að viðræðuaðilinn hafi verið heill í sannfæringu sinni í viðræðunum sem hófust strax að loknum kosningum.