Ljóðaklúbburinn Hási Kisi stendur fyrir ljóðaupplestri í kvöld klukkan 20:30. Lesturinn fer fram í fokheldu einbýlishúsi að Hömrum 19 á Egilsstöðum og er hluti af dagskrá Daga myrkurs á Austurlandi. Í Hása Kisa eru þau Ásgrímur Ingi Arngrímsson, Hrafnkell Lárusson, Ingunn Snædal og Stefán Bogi Sveinsson.
Formenn aðildarsamtaka Industrianställda i Norden, eða samtök starfsfólks í iðnaði á Norðurlöndunum, hafa birt opið bréf til ríkisstjórna landanna. Í bréfinu er m.a. hvatt til að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku.
Hafrannsóknastofnunin lagði í gær til að heildaraflamark íslensku sumargotssíldarinnar fiskveiðiárið 2009/10 verði 40 þúsund tonn. Jafnframt leggur stofnunin til að veiðunum verði stýrt þannig að tryggt verði að sýnataka dreifist yfir hefðbundinn vertíðartíma til að hægt verði að fylgjast náið með þróun sýkingar í stofninum. Vertíðin er nýhafin og er talan byggð á rannsóknarleiðangri Hafró í október og nýrri stofnúttekt.
Í dag kl. 16fer fram keppni eðlisfræðinema Menntaskólanum á Egilsstöðum. Keppt er í því að láta farartæki ferðast sem lengst. Eina orkan sem farartækið fær er úr falli lóðs, sem er hluti tækisins. Um þetta gilda einfaldar reglur um hæð og þyngd farartækis en annars er hönnun þess alfarið í höndum nemenda. Keppnin verður haldin í anddyri kennsluhúss menntaskólans og er áhugasömum velkomið að koma og fylgjast með. Keppnin er styrkt af Kaupþingi og Tréiðjunni Eini.
Embætti lögreglustjórans á Eskifirði harmar að reynt sé að gera rannsókn máls yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar hjá embættinu tortryggilega með því að láta að því liggja að annarlegir hagsmunir hafi ráðið við rannsókn málsins. Farið hafi verið að þeim lögum, reglum og fyrirmælum sem snúa að því með hvaða hætti skuli rannsaka sakamál. Embættið hefur sent frá sér svohljóðandi tilkynningu:
Í umfjöllun um útvarpsleikrit Ásgeirs Hvítaskálds, Hroll viskíauga, sem birt er í Austurglugganum, hafa upplýsingar um frumflutningstíma skolast til.
Útvarpsleikritið verður frumflutt fyrir fullorðna í Sláturhúsinu á Egilsstöðum kl. 20:30 í kvöld, laugardag. Það verður hins vegar frumflutt fyrir börn á morgun, sunnudag, kl. 15 á sama stað.
Sjávarútvegsráðherra hefur gefið út reglugerð um veiðar á íslenskri sumargotssíld og er upphafskvótinn 40.000 tonn, sem þýðir að 25.000 tonnum verður úthlutað til skipa í dag en eru þau til viðbótar þeim 15.000 tonnum sem voru gefin út 16. október 2009.
Í nótt var 900 tonnum af síld landað úr Ásgrími Halldórssyni hjá Skinney-Þinganesi á Hornafirði. Síldin er ágætlega væn og eru fleiri skip nú á síldveiðum.
Félag framhaldsskólakennara hefur sent frá sér ályktun um fjárlagafrumvarp 2010 og niðurskurð á fjárveitingum til framhaldsskóla. Stjórn Félags framhaldsskólakennara leggur fast að ráðherrum, fjárlaganefnd, menntamálanefnd og öllum þingmönnum að sjá til þess að framhaldsskólar fái nauðsynlegt fjármagn til að sinna lögbundnum skyldum við nemendur í þeim erfiðu aðstæðum sem eru framundan.
Á sunnudag kl. 16 verður í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði opnuð myndlistarsýning Péturs Behrens. Þar sýnir hann myndskreytingar við Hrafnkelssögu Freysgoða auk fleiri verka. Einnig er á sama tíma boðið til tónleika í þessu besta tónlistarhúsi Austfirðinga og er það dóttir Péturs, Hlín Pétursdóttir Behrens sópransöngkona, sem flytur íslenskar einsöngsperlur, ljóðasöngva og aríur við undirleik Hrefnu Eggertsdóttur píanóleikara.