Siðfræðistofnun efnir til ráðstefnu um velferð barna og vægi foreldra föstudaginn 20. mars nk. kl. 13 á Hótel Sögu, Harvard II. Ráðstefnan er hluti af verkefni Siðfræðistofnunar Gildismat og velferð barna í neyslusamfélagi sem var styrkt af Kristnihátíðarsjóði. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Rannsóknasetur í Barna- og fjölskylduvernd og Forlagið í tilefni af útkomu bókarinnar Árin sem engin man eftir Sæunni Kjartansdóttur og fjallar um umönnun barna fyrstu æviárin.
Brúarásskóli er 30 ára og verður af því tilefni haldin afmælishátíð í skólanum 20. mars næstkomandi. Fluttur verður á hátíðinni söngleikurinn Ævintýrasúpan eftir Ingunni Snædal, í leikstjórn höfundar og er tónlistarstjóri Jón Ingi Arngrímsson. Auk þess verður ýmislegt fleira til skemmtunar, svo sem getraunir, tombóla og sýning á gömlum myndum og námsbókum liðinna þriggja áratuga.
Þau gleðilegu tíðindi hafa borist að Grunnskóli Reyðarfjarðar varð í fyrsta sæti í flokki skóla með 150-399 nemendur í Lífshlaupi ÍSÍ. Lífshlaupið er fræðslu- og hvatningarverkefni sem lauk nýlega og snerist um keppni í hreyfingu á landsvísu með þátttöku skóla, vinnustaða og einstaklinga. Það kom í ljós að nemendur Grunnskóla Reyðarfjarðar eru sérlega duglegir að hreyfa sig og náðu því framúrskarandi árangri.
Framhaldsskólakennarar ályktuðu um menntun og skólastarf á ársfundi sínum síðastliðinn fimmtudag. Félag þeirra hvetur stjórnvöld til að standa gegn niðurskurði í menntakerfinu og höggva ekki þar sem hlífa skyldi.
Fjarðabyggð stendur fyrir íbúafundum um fræðslu- og frístundastefnu sveitarfélagsins 17. og 18. mars. Á fundunum stendur til að kynna fyrirliggjandi drög að stefnu sveitarfélagins, sem unnin eru af þrjátíu manna hópi fólks úr Fjarðabyggð. Í kjölfarið verður efnt til umræðu um lykilþætti stefnunnar og kallað eftir viðbrögðum og athugasemdum íbúanna. 17. mars verður íbúafundur í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar kl. 20. 18. mars í Nesskóla kl. 20.
Heilsuátak hófst í Íþróttamiðstöðinni Egilsstöðum 20. febrúar og stendur til 30 apríl. Fólk getur valið á milli þess að mæta þrisvar eða fimm sinnum í viku. Þeir sem ná því eiga möguleika á viðurkenningu sem er dregin út hálfsmánaðarlega. Nú hefur fyrsti útdráttur farið fram og viðurkenningar verða veittar síðdegis í dag.