Að vanda kemur Austurglugginn þeim til hjálpar sem vita ekki gjörla hvað á að hafa í matinn um helgina og birtir bestu eldhúsleyndarmál matgæðinga blaðsins á vefnum. Uppskriftir að þessu sinni koma frá Dagmar Jóhannesdóttur. Hún býður okkur upp á léttan og ljúfan helgarmat.
Skólahreysti MS var á Austurlandi í gær og kepptu grunnskólar fjórðungsins í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum að viðstöddum mörghundruð gestum. Þröngt var á þingi og feiknamikil stemning þegar blásið var til níunda og síðasta riðils keppninnar.
Hallormsstaðarskóli stóð uppi sem sigurvegari skóla á Austurlandi, með 52,5 stig. Vopnafjarðarskóli náði öðru sæti með 47,5 stig og í þriðja sæti varð Grunnskóli Hornafjarðar.
Elma Guðmundsdóttir skrifar: Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég hitti ferðavant fólk sem segist ekki hafa komið til Færeyja. Þetta minnir mig á þegar Siggi Nobb sem hafði siglt um öll heimsins höf og komið til fjölmargra lands, spurði svo Jónas Árnason; Jónas, hvernig er á Þingvöllum?
Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum, LME, frumsýnir í kvöld kl. 20 leikritið Beðið eftir Go.com Air, (Go-dot-com Air) eftir Ármann Guðmundsson. Leikritið fjallar um hóp Íslendinga sem eru staddir í flugstöð erlendis á leið heim. Þeir lenda í ýmsum hrakningum, sem skapast af seinkun á fluginu.
Vorboðinn ljúfi er kominn til landsins. Fyrsta heiðlóan sást ein á flugi yfir Einarslundi á Höfn í morgun og ljóðaði í loftinu um vorkomu með sínu yndæla dirrindíi. Blessaðar lóurnar taka því senn að flykkjast til landsins. Lóan á Höfn er nokkuð snemma á ferðinni, því að jafnaði koma fyrstu fuglarnir á bilinu 20. til 31. mars.
Aðalfundur Landssamtaka sláturleyfishafa, haldinn í Reykjavík 19. mars 2009, varar eindregið við hugmyndum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. ,,Það er alveg ljóst að innganga Íslands í Evrópusambandið myndi á fáum árum orsaka endalok íslensks landbúnaðar eins og hann er í dag. Þúsundir starfa myndu tapast og breyting verða á byggð landsins. Matvælalegt sjálfstæði þjóðarinnar verður ekki tryggt nema með öflugum íslenskum landbúnaði," segir í ályktun samtakanna.
Sveinn Jónsson skrifar: Samgönguráðherra Kristján L. Möller hélt í gærkvöld fund á Neskaupsstað um samgöngumál á Austur- og Norð-austurlandi. Tíundaði hann og vegamálastjóri, sem með honum var, þar með ágætum að hverju væri unnið á vegum ráðuneytisins á yfirstandandi ári. Ráðherra kynnti m.a. væntingar sínar um að niðurstaða fengist senn um byggingu umferðarmiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll og festi hann þar með í sessi á sínum stað í Vatnsmýrinni. Verk sem þegar höfðu verið ákveðin á vegum ráðuneytisins voru að því er virtist öll meira og minna á áætlun í kjördæmi ráðherra. En þegar kom að Norðfjarðargögnum þá vandaðist nú málið.