Sækja um lóð fyrir olíubirgðastöð í Reyðarfirði
Verkfræðistofan Mannvit hefur sótt um lóð fyrir 244.000 rúmmetra olíubirgðastöð á Reyðarfirði, fyrir hönd Atlantic Tank Storage og var fjallað um umsóknina í umhverfisnefnd Fjarðarbyggðar í gær. Birgðastöðin er hönnuð fyrir geymslu á almennum olíuvörum þ.m.t. bensíni, gasolíu og jarðolíu og er gert ráð fyrir að í stöðinni verði um 13 geymar. Áætlaður byggingartími er 15-18 mánuðir og er gert ráð fyrir 120 til 150 ársverkum við byggingu stöðvarinnar. Þegar byggingunni er lokið munu þrír til fimm starfsmenn annast reksturinn.