8. bekkur Grunnskóla Reyðarfjarðar bar sigur úr býtum í samkeppninni Reyklaus bekkur 2009 sem haldin er ár hvert á vegum Lýðheilsustöðvar. Verkefni þeirra samanstóð af veggmyndum, borðspili sem heitir No smoking, bókamerkjum og vinnustaðafræðslu. Vinnustaðafræðslan fór fram ímatsal Alcoa þar sem krakkarnir sýndu veggmyndir sínar, fluttu fyrirlestra með glærusýningum og dreifðu bókamerkjum.
Hinn 18. maí voru liðin 120 ár frá því Gunnar Gunnarsson skáld fæddist á Valþjófsstað í Fljótsdal. Af því tilefni hafa Útvarpið, Gunnarsstofnun og erfingjar Magnúsar Ásgeirssonar þýðanda tekið höndum saman um að gera eitt af þekktustu verkum Gunnars aðgengilegt á hlaðvarpi RUV.
Málstofa um byggðamál stendur nú yfir í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík og aðalfundur Vaxtarsamnings Austurlands hefst þar kl. 16. Aðalfundur Þróunarfélags Austurlands var haldinn á sama stað í morgun. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru veitt hvatningarverðlaun Þróunarfélagsins, en ekki hafa borist upplýsingar um til hvers þau fóru í ár.
Í málstofu um byggðamál ræddi Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar um sjónarmið sveitarfélaga við mótun og framkvæmd byggðastefnu. Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps, fjallaði um framtíðarsýn Vaxtarsamnings Austurlands og Jónína Rós Guðmundsdóttir, nýr þingmaður Austfirðinga, velti upp stöðu Austurlands í framtíðinni. Hafliði H. Hafliðason, verkefnisstjóri hjá Þróunarfélaginu stýrði málstofunni.
Haldið verður upp á dag barnsins 24. maí næstkomandi í annað sinn á Íslandi en ríkisstjórn Íslands ákvað í fyrra að dagur barnsins skyldi haldinn hátíðlegur ár hvert. Markmiðið er að vekja sérstaka athygli á börnum í samfélaginu, leyfa röddum þeirra að hljóma, koma málefnum barna á framfæri og styrkja samveru barna og fullorðinna. Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 1954 helgað 20. nóvember alþjóðlegum degi barna en hér á landi var ákveðið að velja deginum stað í vorbirtunni.
Slysavarnafélagið Landsbjörg lýsir þungum áhyggjum af þeim niðurskurði á fjármagni sem ætlað er til reksturs stofnana er sinna öryggis- löggæslu- og björgunarmálum á landinu. Ætla má að slíkur niðurskurður muni valda því að leitað verði í auknu mæli til aðildareininga félagsins sem reknar eru af sjálfsaflafé og hafa orðið fyrir verulegum samdrætti á tekjum í kjölfar þess efnahagsástands er ríkir. Þetta kom fram í ályktun sem landsþing félagsins sendi frá sér um síðustu helgi.
Í kvöld verður í Kirkju- og menningarmiðstöð Fjarðarbyggðar söngskemmtan sem allir ættu að geta haft gaman af. Þá koma fram Kór Reyðarfjarðarkirkju, Englakór grunnskólans og Stigamenn. Stjórnandi er Gillian Hayworth og undirleikari Daníel Arason. Aðgangur er ókeypis og kaffiveitingar í boði. Tónleikarnir hefjast á Eskifirði kl. 20.
,,Núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur fært samfélagi og sjávarútvegi á Íslandi margvíslegan ávinning og leitt til umbóta í greininni. Sjávarútvegurinn er samkeppnisfær á alþjóðlegum mörkuðum og aðstæður í greininni eru fyrirsjáanlegri, starfsöryggi mun meira og störf betur launuð en fyrir daga þess. Fjarðabyggð hefur byggst upp með öflugum sjávarútvegi og þar erurekin sterk sjávarútvegsfyrirtæki, sem m.a. hafa aflað þjóðinni veiðireynslu á nýjum tegundum eins og kolmunna og norsk-íslenskri síld. Fyrirtækin hafa lagað sig að því umhverfi sem þeim var búið með núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, þróað vinnslueiningar í landi og aðlagað skipastól sinn að þeim heimildum sem þau hafa úr að spila,“ segir í ályktun sem bæjarráð Fjarðabyggðar sendi frá sér í dag.