Tíu einföld ráð til að verja sig betur á netinu
Article Index
Page 1 of 11
Friðhelgi einkalífsins á Internetinu hefur ekki verið ofarlega á forgangslista þeirra sem nota það. Flestir sem nota netið hafa yfirleitt ekki mikla þekkingu á virkni né högun þeirra kerfa sem keyra Internetið, enda ekki gerð krafa um slíka vitneskju til að nota það. Það getur reynst flókið að vafra um Internetið „nafnlaust", með öðrum orðum vafra um netið án þess að ónefndir aðilar geti fylgst með þér og jafnvel rýnt í netumferð sem flæðir fram og til baka úr tölvu þinni.Þegar ég segi að hægt sé að fylgjast með netumferð hjá notanda kýs ég að líkja því við það að fara með bréf á pósthús. Ef maður lokar ekki umslaginu og sendir það með ábyrgðarpósti þá getur hver sem er lesið það, svona svipað og þegar maður sendi póstkort í gamla daga. Póstkortin gátu allir lesið, starfsmenn pósthússins, bréfberar og mögulega fleiri aðilar. Aftur á móti ef maður setti það í umslag, innsiglaði og sendi með ábyrgðarpósti þá hafði maður takmarkað möguleikann á því að aðrir geti lesið kortið, fyrir utan þann sem bréfið var stílað á. Ég lít á netnotkun meðalnotenda með svipuðum hætti og póstkortasendingar í gamla daga, semsagt galopið.
Nú hugsa mögulega einhverjir að þetta skipti nákvæmlega engu máli, af hverju ætti mér ekki að vera sama þó einhver viti hvað ég sé að gera? Því spyr ég á móti, af hverju ætti okkur að vera sama hvort einhver geymi netpóstinn okkar, lesi sms-in okkar, fylgist með heimasíðum sem við heimsækjum, hlusta á spjall sem við eigum við annað fólk, skrái niður okkar stjórnmálaskoðanir, skoði myndir af okkur sem við settum ekki á netið sjálf, viti hvað við vorum að gera í gær, skoði greiðslukortaupplýsingar okkar, hver sé uppáhalds maturinn okkar og svo framvegis?
Það má vel vera að manni sé alveg sama þótt NSA, eða einhver annar opinber aðili, lesi þetta allt saman - verði þeim að góðu. Það gæti þó mögulega skipt þig máli hvort einhver hakkari komist í þessi gögn, svipað og árásin á Vodafone á sínum tíma leiddi í ljós. Ég er alls ekki að halda því fram að sum þessara gagna megi ekki vera almenn.
Að sjálfsögðu mega gögn vera almenn sem ég set sjálfur á netið. Hitt er annað mál að gögn um mig séu vistuð einhvers staðar án þess að ég hafi gefið leyfi við slíku. Þar tel ég vera stóran mun þar á.
Því hef ég tekið saman nokkra punkta sem geta hjálpað lesendum til að vernda sig á netinu.