Bæjarstjórn Fjarðabyggðar skorar á ríkisvaldið að veita nægilegu
fjármagni til Fjórðungssjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað til að ekki
komi til lokunar sjúkrasviðs í sumar eins og yfirstjórn
Heilbrigðisstofnunar Austurlands hefur lagt til í sparnaðarskyni.
Umhverfisráðuneytið hefur ekki enn haft samráð við sveitarstjórnir á
svæði Vatnajökulsþjóðgarð við vinnu að sameiningu stjórnunar þjóðgarða
og friðlýstra svæða. Lög um Vatnajökulsþjóðgarð gera ráð fyrir öðru.
Heimamönnum gremst þetta. Ráðuneytið segir enga ákvörðun enn hafa verið
tekna um sameiningu þjóðgarðanna.
Kröfur í þrotabú Trésmiðju Fljótsdalshéraðs og tveggja skyldra félaga
námu tæpum einum og hálfum milljarði króna. Um fimmtungur þeirra fékkst
greiddur. Skiptum á búunum lauk í desember.
Hætt hefur verið sölu Sparisjóðs Norðfjarðar því ekki bárust viðunandi
tilboð. Útibúinu á Reyðarfirði verður lokað í vor til að treysta
reksturinn. Fimm einstaklingar missa vinnuna við það.
Heimamenn á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs vara við að hugmyndir um
sameiningu stjórnunar og friðlýstra svæða í eina stofnun gangi gegn
grunnhugmyndum Vatnajökulsþjóðgarðs um virka þátttöku heimamanna í
stjórnun hans. Þeir vara við að allt valdið verði flutt suður til
Reykjavíkur.
Jól og áramót voru róleg hjá austfirsku lögregluembættunum. Hnífaárás kom þó upp í umdæmi sýslumannsins á Seyðisfirði á annan í jólum. Það mál er til rannsóknar hjá lögreglunni á Eskifirði. Þar gekk mannlífið vel en nokkurt tjón varð að kvöldi aðfangadags í fárviðri í Neskaupstað.
Enginn organisti var við náttsöng í Heydalakirkju á aðfangadagskvöld því
hann var veðurtepptur á Eskifirði. Presturinn segist hafa búið sig
undir tóma kirkju í veðurofsanum en sveitungar hans börðust í gegnum bylinn og fjölmenntu í kirkjuna.
Óttar Steinn Magnússon, fyrirliði karlaliðs Hattar í knattspyrnu, var
valinn íþróttamaður Hattar árið 2011 á þrettándagleði félagsins á
föstudagskvöld. Félagið verðlaunaði fleiri íþróttamenn við sama
tækifæri.
Innan umhverfisráðuneytisins er unnið að hugmyndum að sameiningu
stjórnunar þjóðgarða og friðlýstra svæða á Íslandi í eina stofnun.
Markmiðið er að efla og styrkja starfsemi þeirra. Varað hefur við að
slíkar breytingar á stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs skapi neikvæðni
heimamanna í garð stofnunarinnar.
Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, hlaut í dag
riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumkvæði á sviði
búskaparhátta og matvælamenningar. Forseti Íslands afhenti ellefu
Íslendingum orðuna á Bessastöðum.
Skiptum er lokið á þrotabúi KK Matvæla sem urðu gjaldþrota fyrir rúmum
tveimur árum. Eftir að fyrirtækið skipti um eigendur breyttist
starfsemin og fátt varð um ársreikninga.