Þögul kvöldstund verður í Sláturhúsinu Egilsstöðum á föstudagskvöldið. Gestir verða við komu látnir undirrita þagnareið, en geta svo að því búnu rölt um og skoðað verk ellefu listakvenna sem sækja innblástur sinn í jól bernskunnar og skapa hugljúfa aðventustemmningu. Þögla kvöldstundin hefst kl. 20 og stendur til miðnættis.
Á fundi Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna var ákveðið að hækka verð á slægðum og óslægðum þorski, sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða seldur til skyldra aðila, um 5%. Þá var ákveðið að hækka verð á slægðri og óslægðri ýsu um 10%. Verð á karfa var hækkað um 5%. Verð þetta gildir frá og með deginum í dag, 1. desember 2009.
Í síðasta mánuði kom út stöðumatsskýrsla fyrir Fljótsdalshérað í verkefninu „Allt hefur áhrif, einkum við sjálf!“. Skýrslan var unnin á vegum Lýðheilsustöðvar í samstarfi við sveitarfélög á Íslandi. Verkefnið hefur það að markmiði að stuðla að heilbrigðum lífsháttum barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á aukna hreyfingu og bætt mataræði. Með því er meðal annars verið að bregðast við þeirri þróun að kyrrseta er að aukast og neysluvenjur að breytast. Efni skýrslunnar varpar ljósi á stöðu helstu þátta sem varða aðstæður, starf og framboð hreyfingar og hollrar næringar í leik- og grunnskólum Fljótdalshéraðs. Skýrslan sýnir að á þessum stöðum er unnið mikið og gott starf en einnig að ýmislegt má gera betur.
Annað kvöld, 3. desember, verður Bókavaka Safnahússins haldin og hefst hún kl. 20. Líkt og í fyrra er bókavakan alaustfirsk, þ.e. að þeir rithöfundar sem fram koma eru allir Austfirðingar. Þeir höfundar sem stíga á stokk eru alls fimm talsins: Vilhjálmur Hjálmarsson, Elfa Hlín Pétursdóttir, Kristín Jónsdóttir, Ingunn Snædal og Smári Geirsson.
Opinn borgarafundur verður haldinn í Egilsbúð Neskaupstað kl. 17 næstkomandi föstudag. Efnt er til fundarins til að ræða fyrirhugaða lokun bæjarskrifstofunnar í Neskaupstað, en bæjarstjórn ákvað fyrir skömmu að starfsemin skyldi um áramót flutt yfir á Reyðarfjörð. Ellefu starfsmenn vinna á bæjarskrifstofunni. Fundurinn er á vegum fólks sem andvígt er lokuninni.
Sveitarstjórn Breiðdalshrepps mótmælir harðlega þeirri þjónustuskerðingu sem fellst í niðurskurði Vegagerðarinnar í vetrarþjónustu. Samkvæmt þeim eru þjónustudagar á þjóðvegi 1 yfir Breiðdalsheiði felldir niður, og einungis á að ryðja eitthvað áleiðis inn Breiðdalinn tvisvar í viku. Krafist er endurskoðunar ákvörðunar Vegagerðarinnar.
Lögregumenn við embætti lögreglustjórans á Seyðisfirði gerðu í dag húsleit í húsi á Seyðisfirði að fengnum dómsúrskurði. Við húsleit fundust um 60 kannabisplöntur og græðlingar. Að auki var talsvert af laufi í þurrkun. Þá var og efni tilbúið til dreifingar og sölu. Þrír menn voru handteknir vegna málsins, einn á Seyðisfirði og tveir á Vopnafirði. Þá gerðu lögreglumenn á Vopnafirði húsleit vegna málsins á sínu svæði. Við húsleitina á Seyðisfirði var fenginn til aðstoðar fíkniefnahundur frá Ríkislögreglustjóra ásamt þjálfara.
Í dag, 1. desember 2009, hefur www.spilarinn.net formlega starfsemi sína. www.spilarinn.net er nýr gagnvirkur tónlistarvefur sem býður upp á ókeypis tónlistarstreymi á netinu. Notendur geta valið um tónlistarflytjendur, tónlistarstefnur, tónlistarár, texta og tónlistarupplýsingar á einfaldan og skilvirkan hátt.
Eiríkur Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, brá sér í hlutverk
jólasveinsins á jólahlaðborði Fljótsdalshéraðs á Hótel Hallormsstað á
föstudagskvöld.