Nú um áramótin verða þáttaskil í rekstri fréttavefsins austurglugginn.is. Ritstjóri austfirska fréttablaðsins Austurgluggans, Steinunn Ásmundsdóttir, sem hefur undanfarna 15 mánuði sinnt fréttaskrifum á vefinn í sjálfboðavinnu til hliðar við fullt starf sitt að fréttablaðinu, mun nú hverfa frá vefskrifum og einbeita sér að blaðinu. Steinunn þakkar lesendum vefsins samfylgdina þennan tíma og óskar Austfirðingum og landsmönnum öllum farsældar og samstöðu á nýju ári.
Úthlutað hefur verið 900 þúsund krónum úr Spretti, styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA), til þrettán umsækjenda. Tveir afreksstyrkir voru veittir til einstaklinga upp á 100.000 krónur. Bjarni Jens Kristinsson, skákmaður, og Helena Kristín Gunnarsdóttir, blakkona, fengu þá. Að auki var úthlutað iðkendastyrkjum, þjálfarastyrkjum og félagsstyrkjum.
Áramótabrennur verða víðast haldnar á þéttbýlisstöðum á Austurlandi með kvöldinu. Flugeldasala hefur verið nokkuð svipuð og í fyrra og því útlit fyrir að Austfirðingar verði skotglaðir að vanda upp úr miðnættinu. Spá gerir ráð fyrir björtu eða hálfskýjuðu á Austurlandi í kvöld, 3-18 stiga frosti og hægum vindi af norðvestri. Einnig er gert ráð fyrir hæglætisveðri á nýársdag.
Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi ákvað fyrir jólin að ráðstafa ríflega allri innkomu félagsins árið 2008 til þeirra átta björgunarsveitasem eru á starfssvæði félagsins. Það nær frá Borgarfirði eystra til Djúpavogs. Í hlut hverrar sveitar komu 50.000.- krónur.
Vegna hvassviðris og élja má víða búast við slæmu ferðaveðri á austanverðu landinu fram eftir degi. Búist er við mjög hvössum vindhviðum í Öræfum. Víða um suðaustur- og austurströndinni er ekkert ferðaveður og eru vegfarendur beðnir um að leyta sér upplýsingar um færð og veður áður en lagt er á stað. Austanlands er þæfingur á Fjarðarheiði, mokstur stendur yfir. Hálkublettir, snjóþekja og skafrenningur á öðrum leiðum þó er þungfært og stórhríð er á Breiðdalsheiði. Ófært og óveður er á Öxi. Hellisheiði eystri er lokuð.
Í gærkvöld samþykkti aðalfundur AFLs Starfsgreinafélags ályktun um breytingar á skattamálum sjómanna: „Aðalfundur sjómannadeildar AFLs Starfsgreinafélags átelur stjórnvöld fyrir lagabreytingar á skattaumhverfi sjómanna án þess að tekið sé tillit til sögu sjómannaafsláttarins. Krafa fundarins er að lögin verði afturkölluð eða að sjómenn fái í hans stað dagpeninga líkt og aðrar stéttir sem stunda vinnu fjarri heimili og skorar fundurinn á útvegsmenn að standa með sjómönnum í þessum efnum. ...
Þekkingarnet Austurlands og Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands hafa gert með sér samstarfssamning fram á vor. Samningurinn felur það í sér að UÍA undirbýr og heldur námskeið sem tengjast félagsstarfi á vorönn 2010. UÍA hefur á árinu markvisst byggt upp félagsmálafræðslu sína og haldið námskeið víða um fjórðunginn. Þar með var þeirri vinnu sem hleypt var af stokkunum með félagsmálaskóla UÍA seinasta vetur haldið áfram. Námskeið UÍA verða hluti af víðari fræðslu Þekkingarnetsins sem einkum er ætluð atvinnulausum.
Jólablað Austurgluggans er komið út. Þar má finna margvíslegt jólaefni, viðtöl við Austfirðinga, verðlaunagetraunir; krossgátur, myndagetraun og íþróttagetraun og jólakveðjur forystumanna austfirskra sveitarfélaga og þingmanna kjördæmisins. Austurglugginn er ómissandi á aðventunni og yfir jólin! Fæst á betri blaðsölustöðum.