Fyrsti maí er helgaður baráttu verkafólks um heim allan fyrir mannsæmandi kjörum. Íslenskur verkalýður hefur ætíð átt á brattann að sækja og þrátt fyrir að við búum í landi velferðar og höfum það snöggtum betra hér en meirihluti mannkyns, er margur verkamaðurinn bláfátækur og berst í bökkum hvern einasta dag. Ísland er nú aftur orðið land misskiptingar og er það miður. Hverjir ættu að geta stýrt fram hjá slíkri ógæfu, ef ekki okkar litla þjóðarskúta, þar sem flest ætti að vera höndlanlegt? Það er að segja ef skynsemi og jöfnuður er leiðarhnoð þeirra sem stýra og móta framtíðarmarkmið til handa okkar litla landi.
Margt ber á góma í Austurglugganum að vanda. Velt er vöngum yfir 1. maí, baráttudegi verkalýðsins, og staðan tekin á Austurlandi hjá formönnum verkalýðsfélaganna. Auk ýmissa frétta úr fjórðungnum er svo farið yfir úrslit kosninganna. Við hvílum matgæðinginn þessa vikuna, en í næstu viku fáum við uppskriftir frá nýjum þingmanni Austfirðinga; Jónínu Rós Guðmundsdóttur.
Að búa börnum gott námsumhverfi er verðugt verkefni en þáttur náms í velferð einstaklinga og samfélagsins verður sífellt þýðingarmeiri. Margir hafa nýtt sér það umbreytingaskeið sem við nú göngum í gegnum til að bæta við sig námi en nám þarf ekki endilega að felast í því að setjast á skólabekk. Við getum tekið okkur fyrir hendur ný viðfangsefni sem svo sannarlega geta eflt okkur sjálf sem einstaklinga og skilað þjóðhagslegum ávinningi.
Aðalfundur Búnaðarsambands Austurlands fór fram síðastliðinn mánudag. Meðal umfjöllunarefna sem urðu að tillögum til m.a. ríkisvaldsins má nefna andstöðu við aðild að Evrópusambandinu, hækkað verð hreindýraleyfa, rýmkun veiðitíma gæsa, áhyggjur af umferð hreindýraveiðimanna í afréttum sauðfjár og upprunamerkingu matvæla. Þá lýsti fundurinn ánægju með þá nýsköpun og kraft sem er í sveitum Austurlands. Eftirfarandi eru tillögur aðalfundarins:
Tuttugu og tvær górillur sluppu úr dýragarði Verkmenntaskóla Austurlands í nótt og leika nú lausum hala um Neskaupstað. Samkvæmt upplýsingum innan úr VA liggur fyrir að menn þar á bæ unni sér ekki hvíldar fyrr en þær hafa allar verið fangaðar er líður á daginn. Hætt er við að einhverjar furðuverur sjáist líka á götum Egilsstaða. Eins og ljóst má vera af þessum fréttaflutningi eru bæði Verkmenntaskóli Austurlands og Menntaskólinn á Egilsstöðum að dimmitera í dag með tilheyrandi gleðilátum.
Karólína Þorsteinsdóttir skrifar: Vorið er að koma og þó að það sé þoka í dag erum við búin að fá marga sólskinsdaga. Við erum umgirt háum og tignarlegum fjöllum sem mynda hring í kringum fjörðinn, fjöllum sem vekja hrifningu margra sem koma, ekki síst allra listamannanna sem heimsækja Seyðisfjörð
Lokahátíðir Stóru upplestrakeppninnar fóru fram í Neskaupstað og á Seyðisfirði 22. apríl síðastliðinn. Auk upplestranna voru skemmtiatriði. Í Nesskóla lásu þrettán þátttakendur frá Breiðdalsvík, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað og Eskifirði. María Von Pálsdóttir í Grunnskóla Breiðdalsvíkur sigraði með sínum lestri og í öðru sæti varð Iveta Krasimirova Kostova frá Nesskóla og í því þriðja Almar Blær Sigurjónsson, Grunnskóla Reyðarfjarðar. Á Seyðisfirði tóku fjórtán þátttakendur frá sjö skólum þátt. Í fyrsta sæti varð Glúmur Björnsson, Egilsstaðaskóla, í öðru sæti Sveinn Hugi Jökulsson, Grunnskóla Borgarfjarðar og í þriðja sæti Heiðdís Sigurjónsdóttir í Egilsstaðaskóla.
Kvenfélagasambands Íslands og Félag héraðskjalavarða á Íslandi standa nú fyrir sameiginlegu átaki í söfnun og varðveislu skjalasafna kvenfélaga á landinu og annarra félaga kvenna. Forsvarsmenn kvenfélaga í Múlasýslum og þeir sem hafa undir höndum skjöl frá kvenfélögum eru hvattir til að hafa samband við Héraðsskjalasafn Austfirðinga (s. 471 1417 / nf. This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.) varðandi nánari upplýsingar eða koma skjölunum til þeirra til varðveislu.
Fyrir fáeinum árum dreymdi mig um að góðærið myndi geta af sér góða og fallega bókabúð í bænum þar sem ég bý. Og kannski bakarí sem opnaði snemma með rjúkandi nýbökuðu, líka á sunnudagsmorgnum. Gott ef ég hélt ekki að kvikmyndahús sprytti upp líkt og fyrir galdra og kannski meira að segja framandlegur veitingastaður í þokkabót. Það átti svo margt að dafna og einstaklingsframtakið að blómstra.