Ný félagsaðstaða eldri borgara á Fljótsdalshéraði ber nafnið Hlymsdalir. Aðstaðan er á 530 fermetrum á jarðhæð nýbyggingar í miðbæ Egilsstaða og hin glæsilegasta. Malarvinnslan byggði húsið. Íbúðir eru enn í smíðum á efri hæðum og ætlaðar fólki yfir miðjum aldri.
Á myndinni má sjá Önnu Einarsdóttur afhenda hjónunum Erlu Jóhannsdóttur og Boga Ragnarssyni viðurkenningu fyrir nafngift húsnæðisins.
Drengur, sem var með föður sínum á rjúpnaveiðum í Svínadal í Reyðarfirði, slasaðist alvarlega í dag. Hann hrapaði fram af klettum, átta til tíu metra niður. Björgunarsveitin Ársól sótti drenginn og var hann fluttur með sjúkraflugi frá Egilsstöðum til Reykjavíkur á sjúkrahús.
ARKÍS hefur sagt starfsmönnum sínum á Egilsstöðum upp og verður starfsstöð fyrirtækisins þar lokað 1. febrúar að öllu óbreyttu. Þrír starfsmenn voru hjá fyrirtækinu á Egilsstöðum til skamms tíma, en eru nú tveir. Einar Ólafsson, byggingafræðingur, sem starfað hefur hjá ARKÍS segir stöðuna mjög erfiða hjá arkitektum og byggingafræðingum um land allt.
Höttur tapaði í dag heimaleik í körfunni fyrir Hamri frá Hvergerði í 1. deild karla og höfðu Hamarsmenn yfirburði allan leikinn. Lyktir urðu 71 stig Hattar gegn 113 stigum Hamars.
Næstu leikir Hattar verða gegn Val í Vodafone höllinni í höfuðstaðnum 7. nóvember og 15. nóvember á Egilsstöðum við Þór frá Þorlákshöfn.
Starfsfólk Alcoa Fjarðaáls gerir sér glaðan dag með fjölskyldum sínum í dag. Fjörið verður á Eskifirði, þar sem börn og fullorðnir taka þátt í ýmsu sprelli í kringum gamla Randulffssjóhúsið á vegum ferðaþjónustunnar á Mjóeyri. Gönguferðir, fjörulall, leikir og grill eru meðal annars á dagskránni.
Það fækkar á framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar við Hraunaveitu í dag. Þá fara fimmtíu pólskir starfsmenn heim og koma ekki aftur. Síðustu erlendu starfsmennirnir við framkvæmdirnar fara um leið og vinna leggst af á svæðinu vegna vetrarríkis. Það verður líklega um miðjan nóvember.
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur ákveðið að hækka gjaldskrá Hitaveitu Fjarðabyggðar um 20,5%. Ástæðan er rakin til hærra raforkuverðs. Íbúar eru missáttir við hækkunina, sem mun skila 12 milljónum króna í tekjur til Hitaveitunnar.
Lið Fljótsdalshérað setti í kvöld stigamet í spurningakeppninni Útsvari. Liðið vann lið Vestmannaeyja með 117 stigum gegn 63 og tryggði sér þar með þátttöku í næstu umferð. Lið Fljótsdalshéraðs skipuðu Þorsteinn Bergsson, bóndi á Unaósi, Stefán Bogi Sveinsson, framkvæmdastjóri UÍA og Urður Snædal, skrifstofudama.