Bestu plötur ársins 2013
Article Index
Árið hefur verið viðburðaríkt hjá austfirska trommaranum Kristni Snæ Agnarssyni. Hann gekk í byrjun árs til liðs við hljómsveit John Grant og hefur verið á ferðalagi með honum vítt og breitt um heiminn síðan í mars.
Kristinn hefur einnig komið víðar við sögu sem undirleikari og upptökustjóri. Utan þessarar vinnu er hann mikill tónlistaráhugamaður.
Austurfrétt settist niður með Kidda þegar hann kom austur í jólafríinu og fékk hann til að velja fimm bestu innlendu og fimm bestu erlendu plöturnar á árinu 2013.
5. Laura Marling - Once I Was An Eagle
Eins og ef Joni Mitchell, Bob Dylan og Led Zeppelin hefðu eignast barn. Meistaraverk. Þarf að hlusta á sem eina heild án þess að skipta milli laga.
4. Janelle Monáe - Electric Lady
Framhald af hinni firnasterku The ArchAndroid sem kom út árið 2010. Besta poppballaða ársins er lagið „Primetime". Besta partílagið er „Dance Apocalyptic."
3. How To Destroy Angels - Welcome Oblivion
Trent Reznor úr Nine Ince Nails ásamt eiginkonu sinni með poppaðri en jafnframt tilraunakenndari músík en á NIN plötunni. Frábær plata sem margir vita ekki af. „How Long" er heimsendispopp af bestu gerð og eitt flottasta myndband ársins.
2. Nine Inch Nails - Hesitation Marks
Besta NIN platan síðan The Fragiel frá árinu 1999. Frábær bassaleikur Pino Palladino skemmir ekki fyrir. Trent er kominn til baka. Með laginu „Satellite" eru NIN að taka sér bólfestu í líkama Justin Timberlake.
1. Steven Wilson - The Raven That Refused To Sing (And Other Stories)
Besta sólóplata Steven Wilson hingað til. Hann blandar saman nútímaproggi við gömul áhrif frá King Crimson og er með æðislegt band sem bætir heilmiklum karakter við. Besta gítarsóló ársins í laginu „Drive Home".
5. Hjálmar og Jimi Tenor - Dub & Doom
Algjörlega æðislegur bræðingur og mín uppáhalds Hjálmaplata. Dauða-reggí af bestu gerð.
4. Samaris - Samaris
Enn ein hljómsveitin sem ég uppgötvaði í ár. Ég er kannski aftarlega á merinni og seinn að fatta þetta band en er glaður að ég gerði það.
3. Drangar - Drangar
Þrír snillingar í einu bandi. Ætti ekki að ganga upp með svona sterka persónuleika en gerir það samt. Verð að taka fram hvað þetta er frábært tónleikaband líka.
2. Mammút - Komdu til mín svarta systir
Besta og heilsteyptasta plata Mammút hingað til. Allt gengur upp, góðar lagasmíðar, frábær performans hjá öllu bandinu og flott sánd.
1. Íkorni - Íkorni
Þótt ég tengist þessari plötur örlítið þar sem ég trommaði í tveimur lögum á henni þá verð ég samt að fá að tilnefna þessa plötu sem bestu íslensku plötu ársins. Falleg, fjölbreytt og frábær. Stefán Örn stimplar sig rækilega inn.
5 plötur sem eru alltaf í ipodinum þegar ég ferðast:
1. Talk Talk - Spirit Of Eden
2. Jellyfish - Spilt Milk
3. It Bites - Once Around The World
4. Aimee Mann - Lost In Space
5. Gus Gus - Arabian Horse