Stöðfirðingar fordæma ákvörðun Landsbankans um að loka afgreiðslu
bankans á staðnum. Þeir vilja að sveitarfélagið fjarðabyggð reyni að fá
bankann og Íslandspóst til að endurskoða ákvarðanir sínar um lokanir.
Um 190 Stöðfirðingar hafa undirritað áskorun til bankaráðs og
bankastjóra Landsbankans þar sem hvatt er til að ákvörðun um lokun
útibús bankans á staðnum verði endurskoðuð. Lokunin valdi eyðileggingu í
samfélaginu.
HB Grandi hefur fengið verkfræðistofuna EFLU til að gera úttekt á
fráveitumálum uppsjávarfrystihúss fyrirtækins á Vopnafirði. Grútarmengun
hefur valdið íbúum Vopnafjarðar óþægindum í sumar.
Í kvöld klukkan 20:00, verður haldinn fundur á Veitingastofunni
Brekkunni á horni Fjarðarbrautar og Bankastrætis á Stöðvarfirði um þau
mál sem nú brenna á Stöðfirðingum.
Umsækjendur um starf framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á
Austurlandi (SSA) gagnrýna harðlega ráðningarferlið. Björn Hafþór
Guðmundsson, formaður, tekur við starfinu. Í auglýsingu kom fram að hann
tæki við og veitti upplýsingar um starfið. Björn Hafþór segist engar
umsóknir hafa opnað og hætt afskiptum af ráðningarferlinu um leið og
hann ákvað að sækja um sjálfur.
Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, hjólaði ásamt tveimur öðrum
frá Djúpavogi, yfir Öxi og til Egilsstaða á laugardag. Með ferðinni
vildi hann vekja athygli á baráttu fyrir heilsársvegi yfir Öxi.
Arkitektastofan Stúdíó Strik hefur kært niðurstöðu dómnefndar í
hönnunarsamkeppni Hjúkrunarheimilsins Hulduhlíðar á Eskifirði til
kærunefndar útboðsmála. Fyrirtækið segir einn dómaranna hafa verið
vanhæfan vegna fyrra samstarfs við fyrirtækið sem vann.
Útvarp Ormsteiti FM 103,2 á Fljótsdalshéraði fer í loftið klukkan 16:00
föstudaginn 13. ágúst. Þá verður hitað upp fyrir hverfagrillið með
léttri tónlist, spjalli auk getrauna þar sem hlustendur geta unnið sér
inn eitthvað girnilegt á grillið.