Knattspyrnumaðurinn Eysteinn Húni Hauksson segir að ýmislegt þurfi að
ganga upp til að hann verði næsti þjálfari meistaraflokks karla í
knattspyrnu hjá Hetti. Hann segist samt hafa áhuga á að taka við liðinu.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs ætlar að hætta við eignarnám á landi Egilsstaða II undir Egilsstaðakolli fyrir tjaldsvæði. Miðbæjarskipulag gerði ráð fyrir nýju tjaldsvæði þar, en nú liggur fyrir að unnt er að hefja framkvæmdir við tjaldsvæði á svonefndum Barrareit við Kaupvang, skammt frá núverandi tjaldsvæði. Þetta var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í vikunni og bæjarstjóra falið að vinna að framgangi málsins.
Nú styttist í að veiðum skipa HB Granda á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum ljúki á þessu sumri. Veiðarnar hafa verið stundaðar innan íslensku lögsögunnar og hafa þær gengið vonum framar. Hvert þriggja uppsjávarveiðiskipa fyrirtækisins á eftir að landa einu sinni á Vopnafirði, haldist veiði góð og veður skikkanlegt.
Félag um endurbyggingu á svonefndu Lúðvíkshúsi í Neskaupstað var stofnað í vikunni. Fundaði áhugfólk um verkefnið í Verkmenntaskóla Austurlands. Húsið var byggt sem norskt síldveiðihús inni á Nesströnd árið 1881 en árið 1885 keypti Sveinn Sigfússon húsið og flutti það út á Nes við Norðfjörð þar sem hann opnaði fyrstu norðfirsku verslunina. Í stjórn hins nýja félags sitja Smári Geirsson, Ingibjörg Sigurðardóttir, Kristinn V. Jóhannsson og Hákon Guðröðarson.
Mánudaginn 21. september, kl. 20.00 – 22.00 verður fræðslufundur með Helgu Margréti Guðmundsdóttur verkefnisstjóra hjá Heimili og skóla.Helga Margrét mun fjalla um gildi foreldrasamstarfs og mikilvægi þess að tengiforeldrar séu virkir. Nýstofnuð samtök foreldrafélaga á Fljótsdalshéraði, Héraðsforeldrar, standa fyrir fræðslufundinum.Allir foreldra grunnskólabarna á Fljótsdalshéraði eru hjartanlega velkomnir en nýskipaðir tengiforeldrar eru sérstaklega beðnir um að mæta auk foreldra sem eru í stjórnum og varastjórnum foreldrafélaga skólanna. Fræðslufundurinn er haldinn í Hlymsdölum, félagsaðstöðu eldri borgara í Miðvangi á Egilsstöðum.
Sextíu ára afmæli Möðrudalskirkju var minnst með kvöldmessu í kirkjunni 4. september síðastliðinn.Sr. Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli, rifjaði upp sögu kirkjunnar við það tækifæri.
Fjórði hafnarfundur Hafnasambands Íslands var haldinn í dag í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði. Á fundinn mættu hátt í 60 fulltrúar frá öllum landshlutum. Að loknum fundinum var farið með fulltrúana í kynnisferð um Fjarðabyggð en dagurinn endaði með móttöku í Randúlfssjóbúð.Gísli Gíslason, formaður stjórnar Hafnasambands Íslands segir hag íslenskra hafna bágborinn.
Skátafélagið Héraðsbúar verður með kvöldvöku í skátarjóðrinu í Selskógi á sunnudag kl. 17. Skátastarfið verður kynnt, nýir skátar vígðir og eldri skátar vígðir upp í eldri flokka. Auk þess verður sungið og farið í leiki. Héraðsbúar verða með skemmtiatriði. Gestir eru hvattir til að koma með teppi til að sitja á. Unnt er að nálgast skráningarblað fyrir ný börn sem vilja taka þátt í skátastarfinu hjá Þórdísi skátaforingja á kvöldvökunni. Þeir sem vilja koma að skátastarfinu með krökkunum eru jafnframt beðnir um að láta skátaforingjann vita.