Nýr Austurgluggi kominn út
Austurgluggi þessarar viku ber sterkan keim af komandi kosningum eins og vera ber og frambjóðendur upplýsa lesendur um áherslur sínar. Meðal annars efnis má nefna að Jón Knútur Ásmundsson skrifar í samfélagsspegli Austurgluggans um kvikmyndina Draumalandið og Gunnar Gunnarsson veltir fyrir sér ,,austfirskum“ stjórnmálamönnum og frambjóðendum. Austurglugginn fæst á betri blaðsölustöðum fjórðungsins.
Stækkun þjóðgarðs og skóflustunga að gestastofu
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri í dag og undirritaði við það tækifæri reglugerð um stækkun þjóðgarðsins til norðurs. Verður þá Trölladyngja í heild, Askja og stór hluti Ódáðahrauns hluti af þjóðgarðinum.
Ráðið í sumarstörf hjá Alcoa Fjarðaáli
Yfir 550 umsóknir bárust um auglýst sumarstörf hjá álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Ráðið verður í um sextíu tímabundar stöður framleiðslustarfsmanna og iðnaðarmanna í sumar. Umsóknarfrestur rann út 14. apríl síðastliðinn, en ráðið verður í störfin á næstu vikum. Umsóknir bárust alls staðar að af landinu og flestar af höfuðborgarsvæðinu. Hluti sumarstarfsmanna hefur störf 1. maí en flestir munu hefja störf 1. júní næstkomandi og starfa út ágústmánuð.
Opna fyrir strandveiðar
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, áformar að koma á nýjum flokki veiða, “strandveiðar”, þar sem heimilaðar verða frjálsar handfæraveiðar við ströndina.
Á ríkisstjórnarfundi þann 14. apríl sl. kynnti hann þau áform sín að fresta úthlutun byggðakvóta nú á þessu fiskveiðiári til að skapa svigrúm fyrir breytta stefnu til styrkingar og örvunar atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum. Ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við þau meginsjónarmið sem felast í áformum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Frábær bók til að kenna börnum um sína einkastaði
Blátt áfram, félagasamtök um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum, hafa gefið út barnabókina ,,Þetta eru mínir einkastaðir“ í samvinnu við Hagkaup. Sérfræðingar áætla að ein af hverjum fjórum stúlkum og einn af hverjum sex drengjum séu misnotuð kynferðislega áður en þau halda upp á 18 ára afmælið sitt. Þetta þýðir að í öllum kennslustofum og hverfum eru börn sem þjást í hljóði vegna kynferðislegrar misnotkunar. Tilgangur samtakanna Blátt áfram er að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum á Íslandi.
Hóta að aflífa hreindýrskálfinn
Umhverfisstofnun hefur hótað að aflífa hreindýrskálfinn Líf sæki
uppalendur hans á Sléttu í Reyðarfirði ekki um leyfi umhverfisráðherra
til að halda honum.
Hugmyndaráðuneyti leitar framtíðarsýnar þjóðarinnar
Hugmyndaráðuneytið ásamt menntamálaráðuneytinu vilja vekja athygli á verkefninu Framtíðarsýn þjóðar sem stendur yfir dagana 17. til 24. apríl. Verkefnið er heimaverkefni sem skólar geta boðið nemendum að leysa í faðmi fjölskyldunnar. Verkefninu er ætlað að styrkja tengsl barna og foreldra sem og þjóðarinnar allrar með því veita Íslendingum sterka framtíðarsýn og von.
Hjúkrunarheimili rís á Eskfirði í sumar
Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði, sem lengi hafa verið í undirbúningi, hefjast nú í sumar. Hjúkrunarheimilið rís á lóðinni Dalbraut 1 en samningar hafa tekist við Samkaup um að bærinn leysi lóðina og mannvirki á henni til sín. Gert er ráð fyrir að byggð verði 20 ný hjúkrunarrými og komi þau í stað núverandi Hulduhlíðar. Almenn hjúkrunarrými verða 10 og 8 hjúkrunarrými og 2 hvíldarrými verða fyrir heilabilaða. Hjúkrunarheimili eru byggð á kostnað og ábyrgð ríkisins að 85%
en 15% kostnaðar greiðir sveitarfélagið. Rekstrarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Gott samstarf hefur verið við félags- og tryggingamálaráðuneytið um lóðamálin en sveitarfélagið leggur til lóð án gatnagerðargjalda.