Vinstrihreyfingin - grænt framboð (VG) nýtur 28% fylgis í Norðausturkjördæmi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir RÚV og Morgunblaðið. Þar á eftir koma Framsóknarflokkur með 25,6%, Samfylkingin með 21,3%, Sjálfstæðisflokkur með 20%, Borgarahreyfingin 2,8%, Frjálslyndi flokkurinn 1,7% og Lýðræðishreyfingin 0,5%.
Sjö framboð og flokkar hafa skilað inn framboðslistum og meðmælendum í Norðausturkjördæmi. Framboðsfrestur er runninn út. Framboðin eru Borgarahreyfingin, Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Lýðræðishreyfingin, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð.
Þrátt fyrir páskahret og kulda er vor á næstu grösum. Þetta vor ber með sér von um betri tíð og grósku, ekki aðeins í eiginlegri merkingu heldur einnig í þjóðlífinu. Austurglugginn óskar landsmönnum öllum gleðilegra páska og hvetur til bjartsýni og léttrar lundar! ,,Vertu til, er vorið kallar á þig, vertu til að leggja hönd á plóg. Komdu út, því að sólskinið vill sjá þig, sveifla haka og rækta nýjan skóg."
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tekur fyrstu skóflustunguna að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri í dag um kl. 16:45. Gestastofan verður fyrsta byggingin hér á landi sem verður byggð samkvæmt vottuðum vistvænum byggingarstöðlum.Við þetta tækifæri mun umhverfisráðherra jafnframt undirrita reglugerð um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs til norðurs og verður þá Trölladyngja í heild, Askja og stór hluti Ódáðahrauns hluti af þjóðgarðinum.
Skotveiðifélag Íslands telur að fjölga megi dýrum í hreindýrastofninum um 2000 og þar með veiðileyfum um 500 hvert veiðitímabil. Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélagsins, segir að gegnum rannsóknir á vegum félagsins megi sjá að Norð-Austurland, einkum svæðið út frá Vopnafirði, geti borið um 2000 hreindýr til viðbótar því sem þar er fyrir.
Guðjón Sveinsson skrifar: Evra í dag, evra í gær og evra alstaðar. Þetta er söngurinn sem heyrist og þú lest í hinni blaðfáu veröld Íslendingsins. Hvur and... er þetta? Eru menn ekki komnir með óbragð í gopuna? Eru menn gersamlega viti firrtir, er um visst einelti að ræða eðavita gagnslaust gorrop, til að gera sig gildandi í umræðunni?
Það stefnir í góða þátttöku í Ferðafagnaði á Austurlandi og heimamönnum og gestum standa fjölþættir og forvitnilegir viðburðir til boða um allan fjórðung. Ferðafagnaður, kynningar- og hátíðisdagur íslenskrar ferðaþjónustu er næstkomandi laugardag. Austfirðingar eru hvattir til að kynna sér á vefjunum á www.ferdafagnadur.is og www.east.is hvað austfirsk ferðaþjónusta býður þeim að skoða og njóta.
Ranghermt var í frétt um framboðslista Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi hver skipar annað sæti listans. Það er Björk Sigurgeirsdóttir, framkvæmdastjóri, búsett í Fellabæ. Jafnframt var nafnaruglingur á öftustu sætum. Er beðist velvirðingar og listinn birtur aftur.
Í gær var talsverð ófærð á norðanverðu Austurlandi og lentu ökumenn í nokkrum vandræðum vegna fannfergis.
Fólksbifreið og jeppi skullu saman í snjógöngum á Fjarðarheiðinni, en til allrar mildi urðu ekki slys á fólki. Þá lenti jeppabifreið út af veginum um Jökuldal, þar sem mikil hálka var. Ökumaður og farþegar sluppu ómeidd en jeppinn skemmdist verulega. Vegagerðin segir nú hálku á Fjarðarheiði, Fagradal og á Oddsskarði og eru vegfarendur hvattir til að aka með aðgát.