Félag hópferðaleyfishafa fagnar því að lögbanni Sambands sveitarfélaga Austurlandi á akstur Sternu Travel á milli Egilsstaða og Hafnar hafi verið hnekkt. Í tilkynningu samtakanna er dómnum lýst sem miklum sigri fyrir ferðaþjónustuna í landinu og frjálsa samkeppni.
Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur veitt leyfi til að vinnubúðirnar sem reistar voru fyrir verkamennina sem byggðu álverið í Reyðarfirði fái að standa fram til 30. september á næsta ári. Upphaflega áttu búðirnar að vera farnar árið 2008.
Hæstiréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms Austurlands frá því í vor sem hafnaði staðfestingu á lögbanni sýslumannsins á Höfn á akstur Sternu á milli Hafnar og Egilsstaða. Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) höfðaði málið þar sem það taldi brotið á einkaleyfi félagsins til að skipuleggja almenningssamgöngur á svæðinu.
Matvælastofnun leggur ekki til niðurskurð á sauðfjárbúinu Krossi í Berufirði þar sem stofnunin flokkar riðuafbrigðið Nor98 ekki sem riðu. Héraðsdýralæknir telur þörf á að endurskoða reglur um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
Beitir NK hefur verið seldur til Noregs upp í kaup grænlenska útgerðarfélagsins Polar Pelagic, sem Síldarvinnslan í Neskaupstað á þriðjung í. Togarinn Polar Amaroq, sem grænlenska félagið keypti í vor, færist til Síldarvinnslunnar og verður að Beiti.
Dvalarheimili aldraðra á Egilsstöðum hefur keypt fjórtán íbúðir af Íbúðalánasjóði. Framkvæmdastjóri heimilisins segist finna fyrir miklum áhuga á íbúðunum sem auglýstar voru til leigu í lok síðustu viku.
Áhugahópur um orkusparnað, sem komið hefur verið á fót í Fjarðabyggð, vill að Gamla Vélaverkstæðið á Neseyri verði miðstöð umhverfisvænnar orkunotkunar á Austurlandi. Hópurinn vill meðal annars gera tilraunir með varmadælur.
Gröftur nýrra Norðfjarðarganga gengur nú hraðar þar sem verktakar eru komnir út úr veika rauða laginu sem hægði á vinnunni. Í gær var alls búið að grafa 93 metra. Útlit er fyrir að það náist að sprengja tvær fimm metra sprengingar á dag.
Einn lækni vantar upp á að fjórir fastráðnir læknar starfi við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað (FSN) eftir að forstöðulæknir sjúkrahússins hætti um mitt ár. Staðan hefur verið leyst með ólíkum sérfræðilæknum.
Framkvæmdastjóri hópferðafyrirtækisins Sternu segir fyrirtækið vera að undirbúa að krefjast skaðabótar af hálfu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi en sambandið fékk lögbann á akstur fyrirtækisins á milli Hafnar og Egilsstaða sumarið 2012. Lögbanninu var endanlega hnekkt með dómi Hæstaréttar fyrir helgi.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands telur nauðsynlegt að endurskoða kvótakerfi í mjólkur- og lambakjötsframleiðslu. Það sé eitt af því sem hamli nýliðun í landbúnaði. Útlit sé fyrir að milljarðar fari út úr nautgriparækt á næstu árum eingöngu í kvótakaup.
Mikil sóknarfæri eru í framleiðslu á mjólk og dilkakjöti á Íslandi að mati Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Útlit sé fyrir vaxandi eftirspurn eftir matvælum í heiminum og hækkandi verð. Því skipti máli að bændur hugsi fram í tímann.