Starfsfólk Vísis á Djúpavogi er slegið eftir að fyrirtækið tilkynnti í dag að það áformaði að hætta fiskvinnslu á staðnum frá og með 1. ágúst. Tíðindin þykja óvænt þar sem fyrirtækið hefur byggt upp í bænum síðustu ár.
Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar harmar vinnu Fjarðabyggðar í málefnum ferjunnar Norrænu. Formaður bæjarráðs segist ekki óttast að Smyril-Line flytji starfsemi sína úr fjórðungnum ef ekki takast samningar við Fjarðabyggð.
Víða þarf að taka öryggismál í sveitum til gagngerrar skoðunar. Slökkviliðsstjóri Fljótsdalshéraðs hvetur bændur til að setja upp brunaviðvörunarkerfi í útihúsum. Breytt notkun á útihúsum og aukin skógrækt eru meðal þeirra þátta sem sérstaklega þarf að skoða með tilliti til eldhættu.
Kraftmikið snjóflóð féll í Fannardal í nótt rétt við afhafnasvæði Metrostav sem vinnur að gerð nýrra Norðfjarðarganga. Mikil úrkoma virðist hafa komið flóðinu af stað.
Vísir hf. áformar að flytja alla fiskvinnslu sína í áföngum til Grindavíkur sem þýðir að vinnsla fyrirtækisins á Djúpavogi leggst af. Þar starfa um fimmtíu starfsmenn og hefur starfsemi fyrirtækisins verið hryggjarstykkið í atvinnulífi staðarins undanfarin ár. Sveitarstjórinn segir þó fleiri möguleika í staðinn og ákvörðunin nú sé tímabundið bakslag.
Börnin á leikskólanum Brekkubæ á Vopnafirði láta ekki sitt eftir liggja í brunavörnum þar á bæ. Mánaðarlega gegna þau elstu hlutverki aðstoðarslökkviliðsmanna og fara með leikskólakennara um bygginguna til að taka út brunavarnir.
Snjóflóð féll í Fannardal í fyrrinótt skammt við athafnasvæði Metrostav sem vinnur að gerð nýrra Norðfjarðarganga. Snjóflóðið var nokkuð kraftmikið og staðnæmdist um tíu metra frá veginum sem liggur inn í göngin.
Níu félagar úr björgunarsveitinni Vopna voru í fjóra tíma á sunnudag að moka ofan af húsþaki í Möðrudal. Formaður sveitarinnar segir að snjórinn hafi verið um fimm metrar þar sem hann var þykkastur.
Litlar breytingar verða á efstu sætum framboðslista Framsóknarflokksins á Fljótsdalshéraði frá síðustu bæjarstjórnarkosningum verði tillaga uppstillingarnefndar, sem lögð var fram á félagsfundi í gærkvöldi, samþykkt. Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, er efstur samkvæmt tillögunni.
Hafnarstjórn Fjarðabyggðar og bæjarráð samþykktu í vikunni að halda áfram viðræðum við Smyril-Line, útgerð Norrænu, um mögulegar siglingar ferjunnar til Eskifjarðar í stað Seyðisfjarðar. Bæjarstjóri segist gera sér grein fyrir að málið sé flókið en erfitt sé fyrir sveitarfélög að hafna óskum fyrirtækja um viðræður um þjónustu.
Náttúrustofa Austurlands stendur í þessari viku fyrir vetrartalningu á hreindýrum um allan fjórðunginn. Ráðist er í talninguna nú þar sem dreifing dýranna hefur breyst töluvert á síðustu árum.
Bæjarfulltrúarnir Elvar Jónsson, Eydís Ásbjörnsdóttir og Esther Ösp Gunnarsdóttir skipa efstu þrjú sætin á framboðslista Fjarðalistans í sveitarstjórnarkosningunum í Fjarðabyggð í vor. Listinn var samþykktur á félagsfundi í kvöld.