Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan á Seyðisfirði fagnar tuttugu ára afmæli sínu í ár. Af því tilefni verður hátíðardagskrá í kirkjunni annað kvöld þar sem minning annars stofnanda hennar, Muff Worden, verður heiðruð.
„Þetta á að vera semí þjóðlegt og ferlega skemmtilegt,“ segir Pétur Kristjánsson, forstöðumaður Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði, um árlega Smiðjuhátíð safnsins sem hefst í dag.
„Ég fann að ég var ekki lengur með þá stjórn sem ég vildi hafa og að eitthvað var að klárast af birgðunum. Ég náði sem betur fer að átta mig fljótt á því hvað væri að gerast en það er ekki alltaf sem maður fær viðvörun um það,“ segir Reyðfirðingurinn Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, um tímann sem hún stóð á barmi kulnunar eftir langa og stranga vinnutörn. Ásta Kristín var í opnuviðtali síðasta Austurglugga.
Vöruhönnuðurinn Helga Jósepsdóttir frá Eskifirði hefur að undanförnu starfað sem framtíðarráðgjafi við IED háskólann í Madrid á Spáni. Á sumrin skiptir hún hins vegar alveg um gír og keyrir trukka hjá Malbikun Akureyrar.
„Ég ætlaði að fara að selja steina en fannst þeir svo flottir að ég ætla ekki að gera það, bara að opna safn,“ segir Emil Halldórsson, sjö ára steinaáhugamaður sem opnaði steinasafn að Sellátrum við Eskifjörð í gær.
Norðfirðingurinn Katrín Halldóra Sigurðardóttir segir hafa stefnt að því frá barnsaldri að verða leikkona. Katrín sýktist af leiklistarbakteríunni í Þjóðleikhúsinu þar sem móðir hennar starfaði.
„Í ár verðum við í fyrsta skipti í langan tíma með dagskrá á sunnudeginum, helgistund í kirkjunni, fjölskyldustund á Búðartúninu og félagsvist seinnipartinn,“ segir María Óskarsdóttir, formaður undirbúningsnefndar Franskra daga á Fáskrúðsfirði sem settir verða á fimmtudaginn.