Nýr forstöðumaður Vegahúss
Nýr forstöðumaður tekur við Vegahúsinu, ungmennahúsi á Egilsstöðum, á morgun 1. febrúar. Þá tekur Halldór B. Warén við af Kristínu Scheving sem verið hefur forstöðumaður undanfarin ár. Þrettán umsækjendur voru um starfið.
Halldór er frá Egilsstöðum, menntaður rafeindavirki og hefur getið sér góðs orðs sem tónlistarmaður og upptökustjóri. Undanfarið hefur hann starfað við útsendingar Svæðisútvarps Austurlands. Kristín er flutt af staðnum en mun árlega koma til að fylgja kvikmynda- og myndbandahátíðinni 700IS Hreindýraland eftir.
Helga Jónsdóttir orðuð við ríkisstjórn
Í DV í dag kemur fram að hjá Samfylkingunni hafi í gær komið upp nafn Helgu Jónsdóttur, bæjarstýru í Fjarðabyggð, í tengslum við stjórnarmyndun og ráðherrastóla.
Þegar þetta var borið undir Helgu í dag, sagðist hún ekkert hafa heyrt um þetta og kæmi sér á óvart ef rétt reyndist. Hún væri enda bundin sínu starfi sem bæjarstýra og væri ekki á förum úr því embætti.
Sameiningarviðræður hefjist
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs vill að hafinn verði undirbúningur að formlegum viðræðum við Djúpavogshrepp um hugsanlega sameiningu Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps, en málið hefur verið til umfjöllunar síðustu misseri.
Íþróttabrölt á Stöðvarfirði
Nú eru nemendur í 7. til 10. bekk grunnskóla Fjarðabyggðar önnum kafnir á sameiginlegri íþróttahátíð á Stöðvarfirði. Keppt er í óhefðbundnum íþróttagreinum af ýmsu tagi og á að enda hátíðina á flatbökuveislu nú í hádeginu. Keppni hófst snemma í morgun og stefnt á að allir verði komnir til síns heima um klukkan tvö í dag.
Íbúar á Fáskrúðsfirði stofna íbúasamtök í kvöld
Dreift hefur verið auglýsingu til íbúa á Fáskrúðsfirði þess efnis að mæta í Skrúð í kvöld og stofna íbúasamtök. Fyrsta verkefni samtakanna á að vera að knýja á um að yfirstjórn Fjarðabyggðar hætti við fyrirhuguð áform um sölu áhaldahúss og veghefils af staðnum. Þá mótmæla íbúar fyrirhuguðum niðurskurði hjá slökkviliði og tilfærslu hafnarþjónustu til Reyðarfjarðar.
Ingunn tekur við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs
Ingunn Anna Þráinsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs frá 1. febrúar. 11 umsækjendur voru um starfið. Ingunn er frá Egilsstöðum, er grafískur hönnuður og listamaður og hefur starfað hjá Héraðsprenti. Hún hefur gjarnan farið ótroðnar slóðir í verkum sínum og getið sér góðs orðs fyrir frumlega íslenska hönnun.
Jóna Guðlaug kjörin íþróttamaður Þróttar
Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir var valin íþróttamaður Þróttar fyrir árið 2008 í vikunni. Hún átti frábært tímabili 2007-2008 með blakdeild Þróttar Neskaupstað en þær unnu þrefalt; urðu deildar-, bikar- og Íslandsmeistarar kvenna.