Á miðvikudagskvöld var stofnuð unglingadeild hjá Björgunarsveitinni Héraði á Egilsstöðum og ber hin nýja deild nafnið Héraðsstubbarnir. Undanfarin ár hefur verið samstarf við félagsmiðstöðvar með unglingastarf, sem leiddi til stofnunarinnar.
Klausturpóstur Skriðuklausturs barst i dag og kennir margra grasa í menningarstarfinu þar á bæ að vanda. Meðal annars verður haldið einkar forvitnilegt Rannsóknaþing á vegum Þekkingarnets Austurlands á laugardag og í lok mánaðar verður Lomberdagurinn haldinn hátíðlegur.
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt að fara í skuldabréfaútboð upp á allt að sex hundruð milljónir króna vegna fjármögnunar samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2009 í opnum stækkanlegum flokki.
Bilun kom upp í stofnneti fjarskiptanets Mílu (áður fjarskiptanets Símans) á Austurlandi um klukkan fjögur í nótt. Bilunin varð á milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur. Talið er að um bilun í búnaði sé að ræða. Menn frá Mílu eru á leið austur með nauðsynlegan búnað til viðgerða.
,,Hannes Sigmarsson, yfirlæknir við Heilsugæslu Fjarðabyggðar, hefur í dag verið leystur, tímabundið, frá starfsskyldum sínum við Heilbrigðisstofnun Austurlands, HSA, vegna rannsóknar á reikningum frá honum."
Þetta segir í fréttatilkynningu frá Einari Rafni Haraldssyni, framkvæmdastjóra HSA. Hannes er einn fjögurra lækna sem starfað hafa við Heilsugæslu Fjarðabyggðar.
Fullvinnsla matvæla fer nú fram í frystihúsinu á Breiðdalsvík á vegum félagsins Festarhalds. Framleiðslan er innbakaður fiskur í orly-deigi, bollur, fiskborgarar og naggar. Hráefnið er ferskfiskur og afskurður. Framleiðslan er að komast á fullan skrið og starfa átta starfsmenn við vinnsluna, flestir í 75% starfi. Stefnt er að vinnslu úr 30 til 40 tonnum af hráefni á mánuði en undanfarið hefur verið unnið úr 10 til 15 tonnum.
Miðstöð fyrir fólk í atvinnuleit verður opnuð á Egilsstöðum 12. febrúar. Að rekstri hennar koma Fljótsdalshérað, Þekkingarnet Austurlands, Rauði krossinn, Vinnumálastofnun Austurlandi, Austurnet, AFL Starfsgreinafélag og VR, auk fleiri aðila. 375 eru nú á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun Austurlandi.