Vaxtarsamningi fyrir Austurland lýkur í lok þessa árs og fer þá í endurnýjun. Á milli 20 og 30 varanleg störf hafa orðið til fyrir atbeina samnginsins. Þau eru flest fyrir háskólamenntaða einstaklinga. Iðnaðarráðuneytið hefur gefið til kynna að við endurnýjun Vaxtarsamnings verði lögð aukin áhersla á sérhæfingu svæða til framtíðar. Austfirðingar þurfa því að skilgreina hver sérhæfing fjórðungsins á að vera miðað við aðra landshluta. Gera má ráð fyrir að í næsta vaxtarsamningi verði aukin áhersla á að ýta undir rannsóknir og nýsköpun í málum sem tengjast slíkri sérhæfingu.
Á sunnudag verða stofnuð hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs, undir nafninu Vinir Vatnajökuls. Fer stofnun þeirra fram á fundi í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands kl. 14. Meðal framsögumanna verða Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir. Tilgangur Vina Vatnajökuls verður að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar‐ og fræðslustarf er stuðli að því að sem flestir geti notið þeirra náttúrufyrirbæra og þeirrar sögu sem þjóðgarðurinn hefur að geyma.
Nýverið var úthlutað fjármagni og sérfræðiframlagi úr Vaxtarsamningi Austurlands. Stutt var við sjö verkefni að þessu sinni og eru þau öll tengd ferðaþjónustu á einn eða annan hátt.
Austurglugginn efnir til ljósmyndasamkeppni fyrir krakka í sumar. Þátttakendur geta allir verið sem fæddir eru árið 1997 eða síðar (ath. að í auglýsingu í Austurglugganum misritaðist ártalið). Bestu myndirnar verða birtar í blaðinu og sýndar á ljósmyndasýningu í haust. Höfundur langbestu myndarinnar fær góð verðlaun. Reglur keppninnar eru eftirfarandi:
Fjarðabyggð og Höttur unnu bæði útileiki sína í 32ja liða úrslitum
bikarkeppni karla í knattspyrnu í dag. Hattarmenn unnu Selfyssinga
eftir vítaspyrnukeppni og Fjarðabyggð vann Hauka í vítaspyrnukeppni.
Hópur fólks á Austurlandi hefur á undanförnum mánuðum tekið þátt í verkefninu Vaxtarsprotum. Þátttakendur vinna allir að ákveðnum viðfangsefnum sem lúta að atvinnusköpun í heimabyggð. Um er að ræða fjölbreytt viðfangsefni m.a. á sviði iðnaðar og ferðaþjónustu. Þátttakendurnir, sem nú luku námskeiði á vegum Vaxtarsprotaverkefnisins, voru 19 talsins, en samtals unnu þeir að 15 verkefnum.
Austurglugganum er að þessu sinni dreift á öll heimili á Austurlandi og fylgir blaðinu kynningarblað um Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi sem hefst í næstu viku á Egilsstöðum, í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Meðal efnis í Austurglugganum er viðtal Gunnars Gunnarssonar við Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finna, um ESB og landbúnaðarmálin, leiðaraumfjöllun um kvenréttindadaginn í dag og viðtal við Sigrúnu Steindórsdóttur sem lauk á dögunum sveinsprófi í húsgagnasmíði, ein fárra kvenna. Þá eru umfjöllun og myndir frá brautskráningu nemenda við Verkmenntaskóla Austurlands og Menntaskólann á Egilsstöðum. Eins og glöggir lesendur hafa eflaust áttað sig á hefur útgáfudegi Austurgluggans verið hnikað til og kemur hann út á föstudögum í sumar. Austurglugginn; - brakandi ferskur og sumarlegur.
Dagana 10 – 12. júlí n.k. heldur Jon Hollesen kórstjóri, söngkennari og raddþjálfari, námskeið í Kirkju- og menningarmiðstöðinni Eskifirði. Námskeiðið er öllum opið sem vilja syngja, og nýtist kórsöngvurum einstaklega vel, að sögn Kára Þormar.
Héraðsdómur Austurlands hefur staðfest úrskurð óbyggðanefndar um að hluti lands í Krepputungu teljist þjóðlenda. Landeigendur Brúar á Jökuldal kröfðust þess að úrskurður óbyggðanefndar yrði úr gildi felldur og var þeirri kröfu hafnað. Taldi Héraðsdómur gögn ekki sýna fram á að umrædd þjóðlenda teldist hluti af Brúarjörðinni. Heimildir um landnám á svæðinu væru ekki nægjanlega skýrar til að unnt væri að fullyrða um það.