Jerry Cheeves og Ben Hill, erlendu leikmennirnir tveir sem leikið hafa
með körfuknattleiksliði Hattar í vetur, fara heim um jólin og koma ekki
aftur til liðsins eftir áramót. Þeir óskuðu eftir að fara vegna
persónulegra ástæðna.
Í Fiskhöllinni í Fellabæ er handagangur í öskjunni sem aldrei fyrr, því þar eru tíu manns vakin og sofin yfir kæstri tindabykkju og skötu. Framleiða á um sjö tonn fyrir Þorláksmessu, en því hefur verið slegið fram að Íslendingar leggi sér um þrjátíu tonn af kæstum fiski til munns þennan eina dag ársins.
Körfuknattleikslið Hattar laut í lægra haldi fyrir Ármanni í spennandi leik á Egilsstöðum á laugardag. Ármann sigraði með 77 stigum gegn 68. Stigahæstir í Hattarliðinu voru Jerry Chevesm, Kristinn Harðarson og Sveinbjörn Skúlason.
Síldarvinnslan hf. hefur ákveðið að senda Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur fjögur bretti af sjófrystum ýsuflökum. Alls eru það 4,2 tonn sem fara suður. Síldarvinnslan hvetur fyrirtæki til að leggja sitt að mörkum til aðstoðar þeim sem minna mega sín.
Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, SÚN, veitti á þriðjudagskvöld þrettán milljónum króna til ýmissa samfélagsverkefna á Norðfirði. Er þetta í fyrsta sinn sem veitt er fé úr nýjum styrktar- og menningarsjóði félagsins. Tuttugu og sex einstaklingar og samtök hlutu styrki.
Út er kominn geisladiskur með nokkrum af þekktustu og vinsælustu lögum Inga T. Lárussonar. Það erKór Fjarðabyggðar sem gefur diskinn út en kórinn saman stendur af söngfólki, sem að mestu leyti kemur úr kirkjukórum íFjarðabyggð.
Hollvinasamtök Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað hafa nú lokið því ætlunarverki sínu að styrkja allar deildir spítalans með tækjakaupum og öðrum góðum verkum. Nú síðast gáfu samtökin fæðingardeildinni öryggis- og endurlífgunarborð, hitakassa og í samvinnu við Kvenfélag Reyðarfjarðar nýtt og fullkomið ljósaborð fyrir ungbörn með gulu. Þá gefa Samtök útgerðarmanna í Neskaupstað Breiðabliki sérútbúna baðlyftu. Andvirði gjafanna nú er tæpar sjö milljónir króna.
Þegar Austurglugginn var á ferðinni á Eskifirði í kvöld var kyrrlátt yfir smábátahöfninni. Þrír fiskimenn sprokuðu saman á bryggjunni eftir að hafa hugað að bátum sínum. Einhverjir ætluðu til veiða í nótt sögðu þeir, en annars væri tíðindalítið af sjósókninni.