Fulltrúar Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar segja Framsóknarflokkinn ekki standa við gefin fyrirheit um að færa Nesgötu fyrir byggingu nýs leikskóla í Neskaupstað. Framsóknarmenn segja að við nánari skoðun hafi komið í ljós að fýsilegri kostur sé að hafa götuna áfram á núverandi stað.
Brotist var inn í nytjamarkað Rauða Krossins á Egilsstöðum í síðustu helgi. Þeir sem brutust inn fóru inn um glugga á bakhlið hússins sem stendur í iðnaðarhverfi í bænum.
Hart hefur verið deilt um skipulag í tengslum við byggingu nýs leikskóla í Neskaupstað síðustu mánuði. Skólinn á að vera á Neseyri og greinir menn á um hvort færa eigi Nesgötu niður fyrir skólann. Sá gjörningur eykur kostnað, gæti tafið framkvæmdir og takmarkað stækkun skólans.
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags, segir að menn hafi metið stöðuna þannig rétt væri að skrifa undir nýjan kjarasamning um helgina því lengra yrði ekki komist án átaka og láta á það reyna í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna hvort þeir væru sama sinnis. Hún gefur lítið fyrir gagnrýni formanna nokkurra aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sem hún segir hafa brostið kjark til að standa við ákvörðun sem ekki væri fallin til vinsælda.
Héraðsdómur Austurlands sýknaði í dag lögreglumann af ákæru um kynferðisbrot fyrir að hafa haft í fórum sínum barnaklám. Harður diskur í hans eigu og sterar voru hins vegar gerðir upptækir. Maðurinn sagði efnið hafa komið á diskinn með öðru efni sem hann hefði sótt sér.
Forsvarsmenn bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar telja óráðlegt að hefja viðræður um sameiningu sveitarfélagsins við önnur á þessari stundu. Fjárhagslega myndi hún engu skila í dag. Þá séu jarðgöng forsendan fyrir sameiningu.
Aðgerðir til að snúa við rekstri Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa skilað árangri en voru sársaukafullar. Lítið svigrúm er til framkvæmda næstu árin á meðan skuldir sveitarfélagsins verða greiddar niður.
Þingmenn Norðausturkjördæmis hafa sent Seyðfirðingum yfirlýsingu um að þeir séu ekki tilbúnir að styrkja uppbyggingu annarra hafna til að geta tekið við Norrænu. Forráðamenn Smyril-Line hafa ekki orðið við óskum Seyðfirðinga um viðræður um framtíð ferjusiglinganna en hafa hins vegar fundað með fulltrúum Fjarðabyggðar. Framkvæmdastjóri Smyril-Line segir fyrirtækið ekki tilbúið að bíða eftir göngum undir Fjarðarheiði.
Austurland verður eitt sýslumanns- og lögregluumdæmi samkvæmt frumvarpi sem innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi í morgun. Markmið frumvarpsins er að ná fram hagræðingu og efla faglega þekkingu í umdæmunum.
Klasasamstarf um markaðssetningu á vetrarferðum á Austurlandi hlaut hæsta styrkinn, fjórar milljónir króna, þegar úthlutað var úr Þróunarsjóði ferðamála í gær. Af þeim 33,5 milljónum sem úthlutað var fóru 9,55 milljónir til fjögurra austfirskra verkefna.
Tveggja vikna frí er framundan á greftri nýrra Norðfjarðarganga. Gröfturinn hefur gengið vel síðustu þrjár vikur eftir hæga byrjun og þykja aðstæður í berginu góðar.