Ungur maður frá Reyðarfirði er bæði sár og reiður eftir viðskipti við Bónus á Egilsstöðum í fyrradag. Hann keypti sér tvo kassa af orkudrykk frá Euroshopper, því við vöruna stóð að hún væri á tilboðsverði, 500 ml á 79 krónur og raunhæf kjarabót. Í hillunni stóðu einvörðungu 250 ml dósir og taldi hann því sýnt að Bónus væri að bjóða tvær slíkar á 79 krónur. Var honum sagt af verslunarstjóra að um prentvillu væri að ræða í tilboðinu og fékk engu til hnikað. Í dag voru líka komnar 500 ml dósir í hilluna. Þær kosta samkvæmt uppgefnu hilluverði nú 149 krónur og 250 ml dósirnar 79 krónur.
Borgarfjarðarhreppur hefur verið sýknaður af Héraðsdómi Reykjavíkur vegna kröfu Kaupþings varðandi ábyrgð sem hreppurinn gekkst í árið 1997 fyrir Álfastein. Álfasteinn varð gjaldþrota árið 2003. Hafa málaferli vegna ábyrgðarinnar verið í gangi frá árinu 2006 og komust til kasta Hæstaréttar.
Laufey Frímannsdóttir og Sindri Freyr Jónsson sigruðu í Fjórðungsglímu
Austurlands, þar sem keppt var um Aðalsteinsbikarinn, sem fram fór á
Reyðarfirði milli jóla og nýárs. Laufey var nýverið valin efnilegasta
glímukona landsins og íþróttamaður Vals árið 2008.
Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Bayo Arigbon er genginn til liðs við
1. deildar lið Hattar og leikur með liðinu út leiktíðina. Bayo kom til
landsins í fyrradag og mætti á sína fyrstu æfingu með liðinu um kvöldið.
Námskeið í svokallaðri millimenningu verður haldið á Hótel Framtíð, Djúpavogi, þriðjudaginn 20. janúar næstkomandi. Námskeiðið, eða smiðjan, gengur út á að vekja þátttakendur til vitundar um mikilvægi jákvæðra, innihalds-og árangursríkra samskipta við einstaklinga sem tilheyra mismunandi samfélagshópum.
Eitt sveitarfélag í landinu hyggst lækka útsvarshlutfall frá því sem var í fyrra. Það er Fljótsdalshreppur, sem lækkar úr 13,03% í 12%. Fimmtíu og átta sveitarfélög hækka útsvarshlutfallið.
Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins efna til almenns stjórnmálafundar á Hótel Héraði á Egilsstöðum í hádeginu í dag. Það eru þær Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar og Ólöf Nordal, varaformaður samgöngunefndar.
Fróðlegt verður að heyra hvað þær segja til dæmis um boðaðar stórbreytingar á skipulagi og verkaskiptingu í heilbrigðisþjónustu í landinu, en heilbrigðisráðherra kynnir þær á blaðamannafundi í Reykjavík í dag. Þá verður væntanlega komið inn á Norðfjarðargöng, en það liggur í loftinu að þeim verði frestað um óákveðinn tíma. Síðar í dag kynnir Vegagerðin einmitt Norðfjarðarveg um Norðfjarðargöng í Egilsbúð, Neskaupstað og á Eskifirði í Valhöll á morgun. Þá er ekki ólíklegt að Evrópumálin beri á góma á fundi Sjálfstæðismanna.
Kynning verður á verkefninu „Vistvernd í verki“ á Gistihúsinu Egilsstöðum í kvöld, mánudagskvöldið 5. janúar og hefst hún kl. 20. Um er að ræða kynningu á námskeiðum sem verða í boði fyrir bæði heimili og fyrirtæki.