Á síðustu árum hefur áhugi á uppgerð gamalla véla aukist mikið og æði stór hópur sem hefur áhuga á slíku. Vítt og breitt um Ísland má finna vélagrúskara. Sumir hafa gert upp eina dráttarvél, aðrir margar. Nokkrir eru heimsóttir á nýjum mynddiski um íslenska dráttarvélamenningu.
Menningarveislan „Dagar myrkurs“ á Austurlandi hefst á fimmtudag og stendur í tíu daga. Ástardagar, draugasögur, nornaseiðir, varúlfar og allt þar á milli verður á boðstólum þessa dagana.
Berglind Ósk Agnarsdóttir sagnaþulur frá Fáskrúðsfirði tekur þessa dagana þátt í Ramelton sagnahátíðinni í Donegal á Írlandi. Hátíðin er að þessu sinni helguð hafinu. Berglind, sem starfar sem sagnaþulur, hlaut styrk frá Menningarráði Austurlands til fararinnar.
Austfirska hljómsveitin Bloodgroup kom fram á Airwaves tónlistarhátíðinni í sjöunda sinn þegar hátíðin var haldin um síðustu helgi og spilaði alls á fernum tónleikum.
Austfirsku tónlistarmennirnir Svanur Vilbergsson, Erla Dóra Vogler og Hildur Þórðardóttir halda tvenna tónleika um næstu helgi. Þau hafa öll farið erlendis í nám í klassískri tónlist.
Nítjánda stöðin í flota Atlantsolíu var opnuð á Egilsstöðum í sumar. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast með nýju stöðinni vera að vinna í því að loka hringnum.
Foreldrar, nemendur, starfsfólk skólans og fulltrúar úr stjórnsýslu sveitarfélaga voru boðaðir á skólaþing Hallormsstaðarskóla sem haldið var fyrir skemmstu. Áherslan var á að móta framtíðarstefnu fyrir skólann. Ýmsar frumlegar hugmyndir komu þar fram.
Í Panopticon-galleríinu í Boston í Bandaríkjunum var nýverið opnuð sýning á ljósmyndum Agnieszku Sosnowsku sem starfar sem kennari við Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði. Safnstjórinn segir myndir hennar endurspegla vel upplifun hennar á lífinu í sveitinni.