Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar hafna þeirri ósk Íslands að taka þátt í heildarstjórnun makrílveiða á næsta ári. Íslensk stjórnvöld eru því knúin til að taka enn á ný einhliða ákvörðun um aflahámark í makrílveiðum fyrir næsta ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í dag.
Banaslys varð í Jökulsárhlíð í snemma í morgun. Karlmaður á sextugsaldri ók dráttarvél út af afleggjara að bænum Hlíðarhúsum og virðist hún hafa oltið ofan í Fögruhlíðará. Ættingjar mannsins höfðu undrast um hann í morgun og gert að honum leit. Nágrannar fundu hann í ánni um hádegisbil og var hann þá enn með lífsmarki. Hann lést skömmu síðar þrátt fyrir lífgunartilraunir. Dánarorsök liggur ekki fyrir, að sögn lögreglu.
Þau eru engin léttavara tækin sem nú er verið að flytja úr fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði yfir í nýja verksmiðjubyggingu sem taka á í notkun í byrjun næsta árs. Alls vegur búnaðurinn hátt í 200 tonn og þar munar mest um sjálfan þurrkarann sem einn og sér vegur 97 tonn.
Lögfræðingar á Norður- og Austurlandi vara eindregið við sameiningu og niðurlagningu embætta héraðsdómstóla, sýslumanna og skattstjóra og segja alvarlega grafið undan þjónustu við íbúa landsbyggðarinnar með hugmyndum þar um. Lögfræðingarnir mótmæla því að núverandi tímabundið efnahagsástand sé notað sem átylla til að koma að tillögum sem fyrst og fremst munu færa umsvif og þjónustu frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.
Þjóðahátíð Austfirðinga 2009 var haldin á Vopnafirði um helgina. Kynnt voru tólf lönd og menningu þeirra og matarhefð gerð góð skil. Sem dæmi má nefna að á færeyskri kynningu var boðið upp á allskyns brauðmeti og álegg auk skerpukjöts. Fjöldi fólks mætti á þjóðahátíð, kynnti sér lönd og þjóðir og naut góðgjörða og spjalls úr öllum heimshornum. Vopnafjarðardeild Rauða krossins leiddi undirbúning að hátíðinni.
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur sent frá sér ályktun vegna áforma um álagningu orku- og auðlindaskatts. Bæjarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum 20. október sl. að beina því til þingmanna kjördæmisins að þeir beiti sér gegn samþykkt tillagna í fjárlagafrumvarpi um álagningu slíks skatts og leggur áherslu á að forsendur þróunar og nýsköpunar í sveitarfélaginu verði ekki rýrðar með slíkri sértækri skattheimtu.
Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði í gær og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er ýmislegt sem kemur upp úr skipinu. Þetta virðist vera bíll Andrésar andar en enginn varð þó var við Andrés sjálfan. Bíllinn mun vera á leið á sýningu hjá N1. Skipið siglir utan með kvöldi. Siglingar Norrænu í haust hafa gengið vel og engin ferð hefur verið felld niður vegna veðurs. Ferjan verður ekki í siglingum 5.-19. desember, því þá á hún að þjóna sem hótel í Kaupmannahöfn vegna alþjóðlegu loftslagsráðstefnunnar.
Fjölgað hefur verið hjúkrunarfræðingum sem svara í síma Læknavaktarinnar, númer 1770, á kvöldin og um helgar vegna aukins álags sem rekja má til inflúensufaraldursins. Áður var einn hjúkrunarfræðingur að jafnaði áður á símavaktinni hverju sinni en nú eru fjórir hjúkrunarfræðingar þar samtímis að svara símum á kvöldin og um helgar, þar af tveir í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð 14, Reykjavík, sem virkjuð var til að takast á við verkefnið. Hjúkrunarfræðingar frá Læknavaktinni og Landspítala sitja fyrir svörum og enn verður fjölgað í hópi þeirra ef þörf krefur.
Flugstoðir hafa sótt um byggingarleyfi innan flugvallarins á Egilsstöðum fyrir aðstöðu háloftastöðvar fyrir veðurrannsóknaloftbelgi. Sótt er um byggingarleyfi fyrir gám á steyptum grunni innan flugvallargirðingar. Úr gámnum er hugmyndin að sleppt verði á sjálfvirkan hátt loftbelgjum með ýmsum mælitækjum til rannsókna á veðurfari í háloftunum yfir Íslandi. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti að veita byggingarleyfið á fundi sínum í gær.