Snjóflóðaeftirlitsmenn fylgjast grannt með snjóalögum í Norðfirði og á Seyðisfirði. Fjögur snjóflóð hafa fallið í Norðfirði og tvö í Seyðisfirði á síðasta sólarhring rúmum. Engin hætta er á ferðum og um venjubundið eftirlit að ræða, þó ástæða þyki til að herða eftirlit ef bætir í úrkomu á þessum svæðum.
Snjóflóð féll síðastliðna nótt á veginn um Oddsskarð Norðfjarðarmegin og lokaði honum. Unnið var að því í morgun að ryðja flóðinu burt með hjólaskóflu og tók drjúga stund að moka leið gegnum snjómassann. Oddsskarð er enn ófært og er unnið að mokstri.
Mokstur er hafinn á Vopnafjarðarheiði og á Möðrudalsöræfum. Fjarðarheiði er opin en þar er þæfingur. Þæfingur, hálka og snjóþekja er á öðrum leiðum á Austurlandi. Breiðdalsheiði er ófær. Vegfarendum er bent á að kynna sér ástand vega á vegagerdin.is.
Frá Landssamtökum landeigenda: „Þjóðlendumálið er einn angi græðgisvæðingar sem á endanum leiddi mikla ógæfu yfir þjóðina. Ríkisvaldið réðst að sjálfum eignarréttinum, einum af hornsteinum samfélagsins með öfgafullum og siðlausum kröfum án þess að spyrja um afleiðingar og herkostnað. Landeigendur eru margir hverjir í sárum eftir þá viðureign.“
Í nýjum Austurglugga kennir margra grasa að vanda. Birtur er merkur draumur eins síðasta íbúa Vaðlavíkur, sem virðist segja til um þá brotsjói sem íslenska þjóðarskútan hefur fengið á sig undanfarna mánuði og hugsanlega lendingu. Í opnu er fjallað um glæsileg skíðasvæði Austfirðinga og m.a. umfjallanir um íbúafjölgun í fjórðungnum og útræði frá strandjörðum. Matgæðingur vikunnar deilir með okkur galdrinum við að matbúa svartfugl þannig að hann verði ein helsta skrautfjöður kokksins.
Agnes Arnardóttir, sjálfstætt starfandi atvinnurekandi á Akureyri, gefur kost á sér í 1.-2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í vor.
Helena Þ. Karlsdóttir, lögfræðingur og bæjarfulltrúi á Akureyri gefur kost á sér í 3. - 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.
Þrátt fyrir snjó og garra þustu austfirsk börn og unglingar um götur bæja fjórðungsins í dag og sungu hástöfum allskyns söngva í fyrirtækjum og stofnunum, víðast við góðar móttökur. Að vanda voru þau leyst út með gjöfum eins og sælgæti, ávöxtum, drykkjum eða smáhlutum. Ætla má að kuldaboli hafi klipið í litlar tær og nefbrodda en eins og ungviðinu er tamt er slíkt ekki látið koma í veg fyrir ætlunarverk dagsins.
Þessi kríli heimsóttu Gistihúsið Egilsstöðum í dag, sungu þar Gamla Nóa og fengu hrós og góðgæti að launum.
Á fundi framkvæmdaráðs Vaxtarsamnings Austurlands 17. febrúar síðastliðinn var samþykkt að hafa ekki sérstaka umsóknarfresti árið 2009 heldur taka við umsóknum allt árið eða til 1. október 2009 og afgreiða þær jafnóðum. Á sama fundi var samþykkt að amk. 27 milljónum verði varið til stuðnings verkefna í formi peninga og um 20 milljónum í formi sérfræðiframlags eða tæplega 50 milljónum alls á árinu 2009.
NEED, Northern Environmental Education Development Project, er fjölþjóðlegt samstarfsverkefni um þróun náttúruskólastarfs, rannsóknarmiðaðrar umhverfismenntar, fullorðinsfræðslu um sjálfbæra þróun og uppbyggingu fræðslutengdrar ferðaþjónustu í grannbyggðum þjóðgarða.