Við dyrnar: Hugleiðing á aðventu
Eitt af því sem einkennir jólin er það, að víða er barið að dyrum.Við förum í heimsóknir til ættingja vina, knýjum dyra og það verða fagnaðarfundir, gjarnan yfir indælum kvöldverði. Einn af ritningartextum aðventunnar í kirkjunni dregur einmitt upp mynd af dyrum, sem Jesús knýr á og biður um inngöngu. Þetta eru hvorki meira né minna en dyrnar að okkar lífi og hjarta. Þennan texta er að finna í Opinberunarbókinni og þar segir: „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér" (Opb. 3.20).