Starfsmönnum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í áhaldahúsum á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Norðfirði og Stöðvarfirði var sagt upp í dag. Fjarðabyggð sagði einnig upp skrifstofufólki á Norðfirði og Reyðarfirði í gær. Tilgangurinn mun vera að afnema þær greiðslur til starfsfólksins sem eru umfram kjarasamninga. Bæjaryfirvöld hafa sett stefnuna á 10% niðurskurð í launakostnaði hjá sveitarfélaginu á þessu ári og er þetta liður í að fylgja samþykkt þar um eftir.
Breiðdalshreppur auglýsir stöðu forstöðumanns Breiðdalsseturs á Breiðdalsvík. Starfið felur í sér framkvæmdastjórn er varðar starfsemi, þróun og eftirfylgni við uppbyggingu og rekstur á starfsemi Breiðdalsseturs í Gamla kaupfélagshúsinu. Starfsstöð er á Breiðdalsvík.
Aðalfundur og sólarkaffi Norðfirðingafélagsins var haldinn í Fella- og Hólakirkju 1.febrúar s.l. Á annað hundrað manns mættu og segir Gísli Gíslason að sérstaklega ánægjulegt hafi verið að sjá fólk á öllum aldri mæta.
Í dag féll snjóflóð á veginn um Njarðvíkurskriður og lokaði honum um tíma. Snjóruðningsbíll sem ryðja átti veginn til Borgarfjarðar réð ekki við að moka flóðinu burt, þar sem það var um tveir metrar á þykkt. Grafa var fengin á staðinn í moksturinn og er vegurinn nú opinn að nýju. Nokkuð hefur verið um snjóflóð undanfarið, einkum á Norðfirði og í Seyðisfirði.
Stytta af heilagri Barböru, sem fannst í rústum klaustursins að Skriðu í Fljótsdal, er meðal sýningargripa á nýjustu sýningu Þjóðminjasafnsins. Fornleifafræðingar fundu um 200 brot sem búið er að líma saman.
Ásunnudag, 1. mars, verða einsöngstónleikar í Kirkju- og menningarmiðstöð Fjarðabyggðar á Eskifirði í samstarfi við Félag íslenskra tónlistarkennara og Félag íslenskra hljómlistamanna.
Við íkveikju lá í gær í elsta húsi Borgarfjarðar eystri, sem nú er nýtt sem sumarhús. Slökkvilið var kallað út síðdegis í gærdag. Kveikt hafði verið upp í gamalli Solo-eldavél til að hlýja húsið en ekki verið lækkað aftur eftir að hitna tók innanhúss og var eldavélin orðin rauðglóandi. Skapaði það mikinn hita í húsinu en ekki kviknaði eldur, þó aðeins virðist hafa verið tímaspursmál hvenær kvikna myndi í.
Blúshátíðin Norðurljósablús verður haldin í fjórða sinn á Höfn í Hornafirði dagana 5. til 7. mars næstkomandi. Það er Hornfirska skemmtifélagið sem stendur að vanda fyrir hátíðinni.
Fram er komið frumvarp á Alþingi sem er ætlað að tryggja að eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum geti fengið upplýsingar um meðferð fjármálastofnana á fjármunum þeirra. Að sögn Hilmars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns hjá Regula lögmannsstofu, sem gætir hagsmuna hundruða einstaklinga sem töpuðu fjármunum í peningamarkaðssjóðum, er framlagning þessa frumvarps mjög mikilvægt skref í átt til réttlætis fyrir umbjóðendur hans.